Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Klósettpappír fýkur út um allt

11.07.2015 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson
Fjúkandi klósettpappír er að verða að óþolandi vandamáli í náttúru Íslands að mati Brynhildar Ólafsdóttur, leiðsögumanns. Hún segir að ferðamenn verði að læra að hirða klósettpappírinn eftir sig, setja hann í poka og hafa með sér heim aftur.

„Þetta er þannig að þegar maður kemur á fjölfarna staði, þá er bara klósettpappír úti um allt. Jafnvel líka þegar maður er að labba gönguleiðir sem eru vinsælar eins og Fimmvörðuhálsinn eða Laugarveginn og fleiri staði,“ segir Brynhildur.

„Ef maður fer aðeins út fyrir stíginn þá er bara í hverri einustu gjótu fjúkandi klósettpappír eða klósettpappír undir steini,“ segir hún og bendir á að þetta skemmi upplifun þeirra sem koma á eftir til að skoða náttúruperlur.

„Það er alveg sama hvort hann kemur strax á eftir eða daginn eftir eða vikuna eftir. Stundum er jafnvel pappírinn þarna ennþá ári síðar,“ segir hún og útskýrir að það sé vegna þess að sumarið á Íslandi sé svo stutt. „Þetta nær ekkert að hverfa sisona. Þó að það blotni í þessu, og svo leggist snjór yfir þá eru ennþá tægjur af þessu árið eftir. Og þetta er orðið vandamál víða,“ segir Brynhildur.

Klósettpappír í poka
Í kennslubókinni Ferðamennska og Rötun fyrir nýliða í björgunarsveitum er einnig tæpt á þessu vandamáli. Þar er brýnt fyrir nýliðunum að enginn fari „til fjalla til að skoða kúk og klósettpappír" og þeim kennt að brenna allan klósettpappír í stað þess að skilja hann eftir.

Brynhildur segir að það geti reynst snúið að brenna klósettpappírinn, einkum í vonskuveðri. „Og að auki þarf maður að draga pappírinn í sundur svo að það virki. Og fyrir þá sem vilja ekki vera með puttana í þessu getur það reynst ógeðfellt,“ segir hún og tekur fram að til sé einfaldari lausn á vandamálinu.

„Þeir sem að þurfa að nota klósettpappír, þeir eiga bara að taka hann aftur með sér. Þeir bara eru með litla poka og stinga þessu ofan í poka. Það eru meira að segja til svartir pokar eins og hundaeigendur nota þannig að þú þarft ekki einu sinni að sjá pappírinn. Þetta er bara alveg sjálfsagt,“ segir Brynhildur.

Sama gildir um matarafgang
„Fólk þarf bara að venja sig á það að taka allt með sér til baka sem það fer með út í náttúruna. Það er alveg sama hvort að það eru matarafgangar og skiptir engu máli þó það sé lífrænt. Vegna þess að sá sem kemur á eftir þér og sér bananahýði eða spaghettí-tægjur eða eplakjarna, það er ekkert sérstaklega gaman fyrir þann að koma að einhverjum náttúruperlum og horfa upp á matarleifarnar þínar. Jafnvel þó það sé lífrænt og náttúrulegt og muni eyðast á endanum. Þú tekur með þér svona afganga til baka. Og það sama gildir um klósettpappírinn."

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV