Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Klökkur eftir blaðamannafund og magnaða æfingu

Mynd: Eurovision official / Eurovision official

Klökkur eftir blaðamannafund og magnaða æfingu

06.05.2019 - 11:03

Höfundar

Fyrsta æfing Hatara úti í Tel Aviv er nú afstaðin og blaðamannafundur einnig, þar sem Hatari lét heldur betur finna fyrir sér eins og þau höfðu gefið loforð um. Felix Bergsson á ekki orð yfir sínu fólki en segist ætla að koma Hatara alla leið.

Fyrsta æfing sviðslistahópsins Hatara fór fram í Expohöllinni í gær og svo var blaðamannafundur á eftir þar sem Hatari setti sín mál á dagskrá. Björg Magnúsdóttir dagskrárgerðakona hitti Felix Bergsson sem gegnir hlutverki fararstjóra íslenska hópsins úti í Ísrael en þau settust niður eftir langan dag og fóru yfir stöðuna.

Ótrúlega góð fyrsta æfing

„Dagur þrjú var svakalegur. Þessi fyrsti æfingadagur er alltaf stór fyrir þá sem eru að upplifa þetta í fyrsta sinn,“ segir Felix sem bætir við að æfingin hafi gengið langt framar vonum. „Það er langt síðan ég sá svona góða æfingu og það er augljóst að ísraelsku sjónvarpsmennirnir eru spenntir fyrir atriðinu því þeir hafa lagt mikla vinnu í þetta. Við náðum að koma með athugasemdir fyrir næstu æfingu sem er á fimmtudag, en á mánudaginn verður atriðinu læst.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Það er mikil stemning hjá íslenska hópnum í Ísrael

Klappað og hlegið á blaðamannafundi

Felix segir að viðtökurnar hafi verið mjög góðar eftir fyrstu æfingu og á blaðamannafundinum var bæði hlegið og klappað fyrir Hataramönnum en Hatari bæði glensaði en kom líka þeirri skoðun sinni á framfæri eftir spurningu úr sal að Hatari vildi að bundinn yrði endi á hernám í Palestínu.

„Við erum rík á Íslandi að eiga svona mikinn talent og ég var klökkur eftir blaðamannafundinn svo stoltur var ég,“ segir Felix. Framundan er mikil vinna hjá Felix og öðrum í hópnum en hann segir að nú þurfi að einbeita sér að henni og passa að ná að sofa en eltast ekki bara við partýin.

Hatari alla leið

„Ég ætla að koma Hatara alla leið í þessari keppni. Ef við förum í gegnum undankeppnina ætla ég að sjá til þess að við gerum vel í þessum úrslitum 18. maí. Það er mitt hlutverk og þær skyldur sem ég ber gagnvart íslensku þjóðinni,“ segir Felix að lokum.

Viðtal Bjargar við Felix Bergsson hljómaði í Morgunútvarpinu í morgun og má hlýða á það í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Eldur á sviðinu á fyrstu æfingu

Tengdar fréttir

Innlent

Hatari ætlar ekki að láta ritskoða sig

Popptónlist

Hatari vill sjá enda hernáms í Palestínu

Popptónlist

Glæný sviðsmynd Hatara afhjúpuð

Popptónlist

Von á yfirlýsingu frá Hatara