Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Klofningur segir upp fólki á Brjánslæk

05.01.2017 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Fiskþurrkunarfyrirtækið Klofningur hefur sagt upp fimm starfsmönnum í starfstöð fyrirtækisins á Brjánslæk og tóku uppsagnirnar gildi frá áramótum. Starfsstöðinni verður lokað en Guðni Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings, vonast til að það sé tímabundið. 

Rekstur Klofnings hefur verið þungur undanfarið ár og hafa tekjur lækkað um 65 prósent. Markaðsstaða erlendis varð erfið þegar gengi gjaldmiðils Nígeríu, nærunnar, féll. Þá lækkaði vöruverð Klofnings um allt að 50 prósent í dollurum. Þá hefur styrking krónunnar reynst fyrirtækinu erfið, launahækkanir og að lokum hráefnisskortur vegna sjómannaverkfalls. 

Guðni segir að ekkert hafi verið að gera frá áramótum. Þetta sé í fyrsta skipti í 20 ár að fólk sé sent heim. Það hafa síðast gerst fyrsta ár Klofnings í rekstri þegar verkalýðsfélögin á Vestfjörðum fóru í verkfall. Auk starfstöðvarinnar á Brjánslæk er Klofningur með starfsstöðvar á Ísafirði, á Tálknafirði og tvær á Suðureyri. Guðni vonast til að halda megi rekstrinum gangandi á starfsstöðvunum fjórum en segir útlitið ekki vera bjart.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður