Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klifruðu upp á skriðuna í Reynisfjöru

28.08.2019 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - Lögreglan á Suðurlandi/Þóri
Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína í Reynisfjöru í dag. Hluti þeirra hefur farið upp að skriðunni sem féll í síðustu viku. Sumir ferðalangarnir hafa gengið lengra og klifið sjálfa skriðuna. Karlmaður og barn slösuðust í grjóthruni á þessum stað í síðustu viku en enginn hefur meiðst í dag.

Reynisfjöru var lokað eftir hrun úr berginu austarlega í fjörunni aðfaranótt mánudags í síðustu viku. Daginn áður slösuðust tvö í grjóthruni. Lögregla var með vakt fyrst um sinn á eftir og hefur reynt að girða svæðið af. 

Í myndbandi sem dreift var á síðunni Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook má sjá fjölda fólks í fjörunni. Í bakgrunni sést fólk klifrandi á skriðunni sem féll fyrir rúmlega viku. 

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að lögreglan hafi í dag fengið tilkynningu um för fólksins síðdegis og að tveir lögreglumenn hefðu verið sendir á staðinn. Þeir voru ekki komnir þangað þegar fréttastofa ræddi við Svein.

Austurhluti fjörunnar er enn lokaður. Lögreglan hefur reynt að girða svæðið af. Þær girðingar mega sín hins vegar lítils fyrir mætti sjávarins og skolar burt. Sveinn Kristján segir að lögreglan hafi verið í brasi með merkingar en reyni að halda þeim við. „Við erum að vinna í því að finna varanlegri lausn.“