Klettar finnast eftir 50 ár undir jökli

29.06.2019 - 19:06
Mynd: Katla Líndal / Katla Líndal
Fimmtíu metra háir klettar gægjast nú fram vestast í Grímsvötnum eftir að hafa verið huldir jökli í um hálfa öld. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að þetta skýrist af aukinni eldvirkni.

Grímsvötn liggja í vestanverðum Vatnajökli og eru virkasta eldstöð landsins. Þar hefur eldvirkni og jarðhiti aukist síðustu áratugi sem bræðir jökulinn. Klettarnir uppgötvuðust í vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands. Þeir eru í vesturhluta Grímsvatna. Myndskeiðin með fréttinni tók Katla Líndal.

„Nú eru að koma í ljós klettar sem hurfu í jökul fyrir fjörutíu til fimmtíu árum þegar jökullinn gekk fram yfir svæðið. Þetta er afleiðing af því að eldvirkni hefur aukist svo mikið í Grímsvötnum,“ segir Magnús Tumi.

Fundu kletta á þremur stöðum

Magnús Tumi segir bráðnun jökulsins á þessu svæði ekki skýrast af loftslagsbreytingum heldur fyrst og fremst af auknum jarðhita.  „Ef við hefðum verið að tala saman fyrir tuttugu árum þá hefði ég sagt að þetta þýðir að Grímsvatnahlaup munu fara stækkandi. Það sem gerðist hins vegar á sama tímabili er að jarðhitinn færði sig til þannig að vatn safnast ekki fyrir í Grímsvötnum eins og það gerði fram til ársins 1996. Þess vegna erum við hætt að sjá Grímsvatnahlaup,“ segir Magnús Tumi jafnframt.

Klettarnir verða rannsakaðir frekar þegar þeir verða komnir lengra upp úr jöklinum.  „Þetta er partur af öskjubrún. Þetta eru brattir klettar. Það sem er sýnilegt af þeim stærsta er allavega 50 metra hár klettur. Ef þetta heldur áfram mun þetta fara stækkandi,“ segir Magnús Tumi.

„Við fundum kletta á þremur stöðum. Þarna eru klettar sem ekki eru komnir í ljós sem hlutu nöfn á sjötta áratugnum, sem heita Depill og Mósar sem vonandi fara að sjást bráðum.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi