Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klemens kallaður upp vegna saumavélar

20.05.2019 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Íslenski hópurinn sem tók þátt í Eurovision í Ísrael er lagður af stað aftur heim til Íslands. Hópurinn mætti á flugvöllinn í Tel Aviv í morgun og lenti ekki í neinum vandræðum. Klemens Hannigan var reyndar kallaður upp í kallkerfi flugvallarins í morgun. Erindið var þó aðeins að óska útskýringa á tilvist saumavélar í ferðatösku sem var merkt honum.

Rétt fyrir klukkan átta var hópurinn kominn um borð í flugvélina sem var við það að fara í loftið.

Í gær var dansari Madonnu stöðvaður og tekinn til yfirheyrslu þar sem hún var með palestínska fánann á baki sér í atriði söngkonunnar á Eurovision. Ekkert slíkt kom fyrir Hatara og aðra í hópnum. Einu athugunarefnin af hálfu flugvallarstarfsmanna voru yfirvigt, og svo saumavélin sem þeir undruðust að væri í ferðatösku. Ferðinni er nú haldið til Lundúna og þaðan áfram til Íslands.