Upp á toppnum í gær gæddi Einar sér á humarsúpu og kóki í gleri. Frostið var um 15 gráður en vindurinn hægur. „Þetta var ofboðslega falleg byrjun á árinu og birtan ein sú fallegasta sem ég hef séð á öllum þessum árum þarna uppi,“ segir hann.
Einar fór í fyrsta sinn upp á topp Hvannadalshnúks árið 1989, þá 21 árs gamall. „Þá hélt ég að ég væri að fara þangað upp í fyrsta og eina skiptið,“ segir Einar sem ólst upp á bænum Hofsnesi í Öræfum og býr þar enn þann dag í dag. Þá fór hann með ættingjum og nágrönnum úr Öræfunum. Flest göngufólkið var þá klætt í gúmmískó og með broddstaf í hendi. Fljótlega eftir fyrstu gönguna fór Einar að vinna við landvörslu og kynntist þá mikið af fjallgöngufólki og fékk brennandi áhuga á fjallgöngum og skíðaiðkun.
Hefur starfað lengst allra við fjallaleiðsögn
Faðir Einars, Sigurður Bjarnason, hætti hefðbundnum búskap í Hofsnesi árið 1989 og fór að bjóða upp á ferðir út í Ingólfshöfða á heyvagni. „Pabbi benti mér á að þar sem ég var að fara með vini mína á Hvannadalshnúk á hverju ári og jafnvel líka með vini vina minna þá gæti ég farið að bjóða upp á ferðir þangað.“ Hann stofnaði fyrirtækið sitt, Öræfaferðir, árið 1994 og kveðst vera sá fjallaleiðsögumaður sem lengst hefur starfað við fagið hér á landi.
Yfirleitt fer Einar á Hvannadalshnúk með hópi göngu- og skíðafólks. Í seinni tíð hefur hann aðeins farið með skíðafólk þangað upp. Hann fór einn í 300. ferðina sína í gær. Oft eru aðstæður þannig að hann kemst ekki alla leið á toppinn og hann telur þær ferðir ekki með. Í gær fór hann lengri leið til baka en vanalega og var með skíðin meðferðis. Leiðin var allt í allt um 30 kílómetrar og segir hann að hæfa ágætlega þar sem þetta var þrjúhundruðasta ferðin.