Klausturmálið: Hvað hefur gerst?

23.05.2019 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Á mánudag var hálft ár liðið frá því að sex þingmenn, fjórir úr Miðflokknum og tveir úr Flokki fólksins, settust út í horn á vínveitingastaðnum Klaustri við Kirkjutorg í miðbæ Reykjavíkur. Nokkrum dögum seinna birtu bæði DV og Stundin fréttir upp úr samtali þingmannanna og Klausturmálið varð til.

Klausturmálið er fordæmalaust í íslenskri stjórnmálasögu. Fátt annað komst að í umræðunni og efnt var til upplestrar í Borgarleikhúsinu með þeim ummælum sem höfðu birst.   En hvað hefur gerst á þeim sex mánuðum sem liðnir eru síðan upptökurnar litu dagsins ljós? 

Miðflokkurinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi

Miðflokkurinn jafnaði met Borgaraflokksins yfir besta árangur nýs flokks í þingkosningunum fyrir tveimur árum. Hann hlaut 10,9 prósent atkvæða og sjö þingsæti.  Þetta þótti mikill sigur fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem hafði yfirgefið Framsóknarflokkinn eftir hörð átök við núverandi formann flokksins en þau máttu meðal annars mátti rekja til Wintris-málsins

En eftir að ummæli þingmannanna af Klaustri rötuðu í fjölmiðla hrapaði fylgi flokksins.  Í könnun sem Fréttablaðið birti 5. desember mældist flokkurinn með 4,3 prósenta fylgi sem hefði þýtt að hann næði ekki manni inn á þing.  Mánuði seinna birtist könnun frá Gallup sem sýndi að fylgi flokksins hefði minnkað um sex prósentustig en aðeins 5,7 prósent sögðust ætla að styðja hann. 

Samkvæmt síðustu könnun MMR, sem birtist 16. maí, sögðust 11,8 prósent ætla að kjósa flokkinn og 8,9 prósent sögðust styðja flokkinn í könnun Gallups sem birtist í lok síðasta mánaðar. Flokkurinn er í dag stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á Alþingi eftir að tveir þingmenn úr Flokki fólksins gengu til liðs við hann. 

Kallað eftir afsögn en fóru í leyfi

Þingmenn annarra flokka á Alþingi brugðust hart við eftir að ummælin birtust og var kallað eftir afsögn þingmannanna.

Flestra augu beindust að Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins, fékk Lilju inn í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar hann sagði af sér sem forsætisráðherra eftir Wintris-málið en þingmennirnir fóru nokkuð hörðum orðum um Lilju á upptökunum af Klausturbar. Viðtal Kastljóss við Lilju um málið vakti mikil viðbrögð. „Ég upplifi þetta sem algjört ofbeldi.

Mynd:  / 

Tveir þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, fóru í leyfi eftir að málið kom upp en sneru svo aftur til starfa. Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, sem sátu á þingi fyrir Flokk Fólksins, voru reknir úr þeim flokki og gengu síðar til liðs við Miðflokksins.

Héraðsdómur, Landsréttur og Persónuvernd 

Fjórir þingmenn MIðflokksins leituðu til Persónuverndar í desember og óskuðu eftir því að það yrði rannsakað hvort Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal þeirra, hefði átt sér samverkamenn. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í gær að upptakan hefði verið í bága við persónuverndarlög, meðal annars vegna þess hversu löng hún var.  Báru Halldórsdóttur, sem tók upp samtölin, var hins vegar ekki gert að greiða sekt þar sem Persónuvernd taldi að þingmenn nytu minni einkalífsverndar en aðrir sem almannapersónur.

Þingmennirnir fóru einnig með málið fyrir dómstóla og óskuðu eftir því að gagnaöflunarvitnaleiðslur færu fram vegna hugsanlegrar málsóknar á hendur Báru.  Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu og taldi ekkert benda til þess að hún hefði átt sér vitorðsmenn. Landsréttur staðfesti svo þann úrskurð.  Persónuvernd hafnaði þessari kenningu líka en í úrskurði stofnunarinnar frá því í gær segir að rannsókn málsins hafi ekki leitt í ljós einhvers konar samverknað. Ekki hefur náðst í þingmenn Miðflokksins vegna málsins og því liggur ekki fyrir hvort þeir ætli með málið lengra eftir niðurstöðu Persónuverndar.

Mynd:  / 

Siðanefndin eftir

Forsætisnefnd Alþingis tók ummæli þingmannanna einnig til umfjöllunar en það átti eftir að draga dilk á eftir sér. Um miðjan desember sendi forseti Alþingis fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem kom fram að öll forsætisnefndin væri vanhæf til að fjalla um málið.  Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði síðar í kvöldfréttum RÚV að forseti og varaforsetar væru vanhæfir vegna ýmissa ummæla sinna um málið. 

Þar með hófst leit að aukavaraforsetum til að taka þetta verkefni að sér en viðkomandi mátti ekki hafa tjáð sig um Klausturmálið. Að endingu voru þau Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson kosin en þau sitja sitthvorumegin við Sigmund Davíð á Alþingi. 

Haraldur og Steinunn Þóra óskuðu fyrst eftir ráðgefandi áliti frá siðanefnd Alþingis og vildu fá að vita hvort siðareglur þingmanna næðu yfirhöfuð til hegðun þeirra á Klaustri. Nefndin taldi svo vera og sagði umræðuna á Klaustri ekki hafa verið einkasamtal.   Steinunn og Haraldur tíndu svo til ummæli sem höfðu birst í fjölmiðlum og sendu þingmönnunum sex og gáfu þeim tækifæri til að að útskýra þau frekar. Þingmennirnir hafa sent nefndinni svö sín og hefur málinu því verið vísað til siðanefndar. Forsætisnefnd mun síðan taka endanlega ákvörðun þegar álit siðanefndarinnar liggur fyrir. 

Mynd:  / 
Bergþór Ólason sagðist í viðtali við Kastljós ekki líta á sig sem ofbeldismann
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV