Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klapparstígur í regnbogans litum

09.08.2019 - 07:09
Mynd: RÚV / RÚV
Hinsegin dagar hófust í Reykjavík í gær. Eins og undanfarin ár var gata í miðborg Reykjavíkur máluð í regnbogalitum og að þessu sinni var Klapparstígur fyrir valinu.

Klukkan hálf tíu í gærmorgun hringdi bjalla Kauphallarinnar og Hinsegin dagar voru þar með settir. Með svokölluðu fyrirpartíi í Kauphöllinni var áhersla lögð á að opna umræðu um stöðu, réttindi og líðan hinsegin fólks í atvinnulífinu.  Hátíðin hófst svo á hádegi þegar Klapparstígurinn, gleðigatan í ár, var málaður í öllum regnbogans litum en gatan varð fyrir valinu vegna ríflega 30 ára hýrrar sögu hennar. 

Hinsegin dagar fagna tuttugu ára afmæli í ár. Þá eru 50 ár frá Stonewall uppreisninni í New York - en þau uppþot eru gjarnan sögð hafa markað upphaf sýnilegrar réttindabaráttu hinsegin fólks. Á hátíðinni geta gestir fræðst um sögu hinsegin baráttunnar, fylgst með dragkeppni og hinsegin uppistandi og átt ljúfa hinseginvæna fjölskyldustund, svo fátt eitt sé nefnt. Dagskráin stendur yfir í tíu daga og hefur aldrei verið veglegri. En í ár eru hinsegin dagar seinni á ferðinni en venjan er.  

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, segir að í tilefni 20 ára afmælis Hinsegin daga hafi verið ákveðið að hafa hátíðina stærri í sniðum í ár. „Við vildum gera okkur breiðari i tilefni afmælisins og leggja undir okkur fleiri daga og bjóða upp a fleiri viðburði en svo hefur það sennilega ekki farið fram hjá neinum að það eru stóri tónleikar í borginni á laugardaginn og það er kannski ekkert viðeigandi að tveir rauðhærðir  menn séu að keppast um athyglina á sama degi,“ sagði Gunnlaugur í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær en þar vísar hann til tónleika Ed Sheeran en búist er við að 50.000 manns sæki tvenna tónleika hans á Laugardalsvelli um helgina. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV