Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Klapp frá björgunarfólki róaði dýrin

03.08.2019 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Felix Bjarnason
Um fimmtíu grindhvalir strönduðu í gærkvöld í fjörunni neðan við Útskálakirkju í Garði. Níutíu björgunarsveitarmenn og fjöldi sjálfboðaliða hélt hvölunum votum og vann að því að losa þá eftir að flæddi að. Þrjátíu dýrum var bjargað og segir aðgerðastjóri árangurinn framar vonum. Björgunarsveitarmenn vinna nú að því að draga hræ hinna sem ekki náðist að bjarga á haf út. Fjaran hefur verið girt af vegna sýkingarhættu.

 

Ný viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skal við strandi hvala var virkjuð í fyrsta sinn í tengslum við strandið. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem svona stór vaða strandar hér við land en 52 dauðir grindhvalir fundust í Löngufjörum á Snæfellsnesi fyrir tveimur vikum. 

Óvenjulegt verkefni

Verkefni björgunarsveitamanna var óvenjulegt. Þeir þurftu í raun að byrja á því að læra hvernig ætti að umgangast hvali. Dýralíffræðingur var þeim til halds og trausts. „Þetta er ekki það sem björgunarsveitarmenn eru að æfa sig í eða gera á hverjum degi þannig að þetta var svolítið nýtt fyrir öllum,“ segir Elva Tryggvadóttir sem stýrði aðgerðum í fjörunni í nótt. 

Dýrin lágu á víð og dreif um fjöruna. „En þú heyrðir í þeim andardráttinn og sást hreyfingarnar hjá þeim,“ segir Elva. 

Björgunarsveitarmennirnir voru vel búnir, í flotgöllum með hjálma, grímu og gleraugu, því smithætta getur verið af blæstri hvalanna og þeir geta slegið fast frá sér með sporðinum. Aðrir sjálfboðaliðar voru ver búnir. 

Gekk ekki átakalaust

Björgunarstarfið tók á, klukkan eitt var háfjara, og um klukkan þrjú segir Elva marga hafa verið orðna framlága en þá fór að flæða að, fyrsta dýrið losnaði og vonarneisti kviknaði í brjóstum björgunarmanna. Verkinu var þó ekki lokið, dýrin voru þreytt og sár eftir að hafa bylt sér í grjótinu. „Og þegar byrjaði að flæða að fóru þau að hreyfa sig meira, þá verður barningurinn meiri, reyna að losa sig, komast af stað.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Felix Bjarnason
Elva Tryggvadóttir.

Þrír til fjórir björgunarmenn syntu með hverju dýri og beindu þeim út á haf en þau voru áttavillt og vönkuð eftir að hafa legið í óþægilegri stöðu á ströndinni og syntu mörg í hringi. Í hópnum sem náðist að bjarga voru nokkrir kálfar sem björgunarmenn höfðu talið af og gladdi það þá mikið að heyra tístið og horfa á eftir þeim á haf út. Aðgerðum lauk um átta leytið. Elva var ósofin en ánægð þegar fréttastofa ræddi við hana í morgun. „Ég held það séu allir bara að melta þetta, við erum enn bara vá, gerðist þetta. Maður fann hvernig vonin dvínaði og jókst og þetta fór fram úr okkar björtustu vonum. Öllum dýrunum sem voru með einhverju lífsmarki náðum við að koma hérna út.“

Þessu þakkar Elva elju og þrautsegju björgunarfólks. „Allra þeirra sem voru hér að vökva, halda þeim félagsskap og gefa þeim klapp því það greinilega róaði dýrin.“

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni felix bjarnason - Bjarni Felix Bjarnason
Grindhvalskálfur, nokkrir kálfar komust aftur út á haf í nótt en ekki allir.

 

Svæðið girt af vegna sýkingarhættu

 Suðurnesjamenn hafa í dag gert sér ferð í fjöruna til að virða hræin fyrir sér. Svæðið sjálft hefur nú verið girt af vegna sýkingarhættu, enda blóð og vessar víða. 

Makríltorfa líkleg ástæða

Grindhvalir eru hópdýr, elta leiðtogann. Það eru uppi ýmsar kenningar um hvers vegna þeir eiga það til að synda upp í fjörur en í þessu tilviki telur Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávarlíffræðingur, að þeir hafi elt æti upp á grynningar og tapað áttum. Makríltorfa var skammt undan ströndinni. 

Reyna að draga hræin á haf út

Hræin sem eru á annan tug talsins geta ekki legið áfram í fjörunni svona skammt frá byggð. Bergný Jón Sævarsdóttir, sviðsstjóri hjá Suðurnesjabæ segir mikilvægt að bregðast hratt við. Bærinn fundaði í dag og í kvöld á með hjálp björgunarsveitanna á svæðinu að reyna að draga þau út á sjó. Til þess gæti þurft nokkrar tilraunir. Þá er hugsanlegt að það þurfi að urða einhver hræ, annað hvort í fjörunni sjálfri eða í Álfsnesi. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV