Kjöt án beins til kasta dómstóla

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Hamborgarabúllu Tómasar, TBJ ehf. sem er rekstrarfélag Hamborgarabúllunnar og einum starfsmanni fyrirtækjanna tveggja fyrir tollalagabrot og peningaþvætti. Lögmaður fyrirtækjanna segir málið á misskilningi byggt og að ákærunni verði varist fyrir dómi.

Málið snýst í grunninn um innflutning á frosnum nautaframpörtum. Lúðvík Örn Steinarsson, lögmaður Hamborgarabúllunnar, segir við fréttastofu að mistök hafi verið gerð þegar verið var að fylla út tollskýrslur. Í þær hafi verið ritað að um kjöt með beini hafi verið að ræða þegar raunin var að kjötið var beinlaust.

Kjötið hafi fyrir misskilning verið fært í rangan tollflokk og þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir fyrst þegar kjötið var flutt inn hafi umbjóðendur hans staðið í þeirri trú að tollskýrslurnar hafi verið fylltar rétt út.

Ekki hafi verið um ásetning að ræða segir Lúðvík og þegar málið kom upp hafi umbjóðendur hans boðist til að greiða mismuninn á raunverulegu verði og því sem fram kom á tollskýrslum.

Málið er á dagskrá hérðasdóms í næstu viku. Ákæran er í tveimur liðum. Sú fyrri snýr að starfsmanni fyrirtækjanna og er honum gefið að sök að hafa á tveggja ára tímabili veitt tollyfirvöldum rangar eða villandi upplýsingar um tegund afurða sem voru fluttar til landsins. Meint brot áttu sér stað á árunum 2016 til 2018 og meintur ávinningur af þeim metinn á 19,5 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu starfar viðkomandi á skrifstofu fyrirtækisins og hefur ekki komist í kast við lögin áður.

Síðari liðurinn beinist gegn Hamborgarabúllu Tómasar ehf. og TBJ ehf .í tenglsum við meint brot starfsmannsins og er ákært fyrir peningaþvætti. Er ávinningurinn metinn á tæplega 8 milljónir króna í tilviki Hamborgarabúllu Tómasar og 8,6 milljónir króna í tilviki TBJ ehf.

Er farið fram á að bæði starfsmaðurinn og fyrirtækin verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi