Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kjósa líklega nýja bæjarstjórn næsta vor

27.10.2019 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Stefnt er að kosningum næsta vor í sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Íbúar á Borgarfirði eystra, Djúpavogi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði samþykktu sameiningu sveitarfélaganna í gær.

64,7% kjósenda í Borgarfjarðarhreppi samþykktu sameiningu, en 25% voru andvígir henni. Auðir og ógildir seðlar voru rúmlega 10%. Á Djúpavogi greiddu 63,7% kjósenda með sameiningu og 35,5% gegn henni. 0,8% atkvæðaseðla voru auðir eða ógildir. Nærri 87% kjósenda á Seyðisfirði voru hlynntir sameiningu, 12,5% voru andvígir og auðir eða ógildir kjörseðlar voru innan við 1%. Á Fljótsdalshéraði var sameining samþykkt með nærri 93% greiddra atkvæða. Rúmlega 6% voru andvíg og auðir og ógildir seðlar voru ríflega 1%. 

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri á Seyðisfirði, fagnaði niðurstöðunni í gær. „Ég er mjög glöð í hjartanu og þetta er líka mjög mikið tilfinningamál. Þannig að þetta eru svona blendnar tilfinningar, ég verð að viðurkenna það. En ég er mjög sátt, ég held að þetta muni styrkja öll þessi fjögur sveitarfélög. Þau eru öflug að mörgu leyti fyrir en þau munu verða mjög sterk saman,“ sagði Aðalheiður í viðtali við Rúnar Snæ Reynisson, fréttamann í gærkvöld.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, fagnar því hve afgerandi niðurstöðurnar voru. „Hérna hjá okkur var 80 prósent kjörsókn, tæplega, og af þeim sem tóku afstöðu þá voru 65 prósent sem sögðu já sem hlýtur, í hvaða kosningum sem er, að vera afgerandi niðurstaða,“ segir Gauti.

„Næstu skref eru þau að það verður settur saman hópur fólks sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sameinaðs sveitarfélags og við erum að stefna að því að það verði kosið til sveitarstjórnar þess sveitarfélags einhvern tíma í apríl sennilega,“ segir Gauti. 

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar um sameiningu, tekur í sama streng og fagnar því að yfirgnæfandi meirihluti sé hlynntur sameiningu. „Ég verð nú bara að lýsa yfir ánægju minni með þetta og sérstaklega það hversu afgerandi niðurstaðan er. Það er bara mikill styrkur af því. Það hefði verið erfiðara ef þetta hefði verið mjótt á munum en það er það ekki.“ 

Vinnuheiti sveitarfélagsins er Sveitarfélagið Austurland en Gauti kveðst gera ráð fyrir því að íbúar kjósi um nýtt nafn á sameinað sveitarfélag.