Kjörsókn í Hong kong í hæstu hæðum

24.11.2019 - 19:26
Mynd: EPA-EFE / EPA
Kjörsókn í héraðskosningum í Hong kong í dag sló öll met. Minna fór fyrir mótmælum síðustu daga en undanfarna mánuði og kosningarnar fóru friðsamlega fram.

Kjörsóknin var 70 prósent sem er mun meira en í síðustu héraðskosningum 2015 þegar hún var 47 prósent. Fulltrúar, hliðhollir stjórnvöldum í Kína, hafa verið í meirihluta. Niðurstöður kosninganna í dag liggja ekki fyrir.

Stjórnmálaskýrendur hafa sagt að niðurstöðurnar yrðu prófsteinn á það hvort almenningur styðji mótmælin sem hafa staðið síðan í sumar, eða leiðtoga heimastjórnarinnar.

Mótmælendur höfðu hægt um sig fyrir kosningarnar af ótta við að þeim yrði frestað ef allt yrði á suðupunkti. Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnarinnar, sagði í ávarpi í dag að aðstæður væru mjög krefjandi en að vel hafi gengið og kosningarnar farið friðsamlega fram. 

Umsátrið um tækniháskólann stendur þó enn. Þar hafa mótmælendur haldið til í viku og unnið ýmis spellvirki. Lögregla hefur umkringt skólann og handtekur þá mótmælendur sem reyna að fara þaðan. Mótmælandi sagði í viðtali að hann hafi verið þar í átta daga og væri reiður yfir því að komast ekki að kjósa.