Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kjartan Bjarni rannsakar sölu Búnaðarbankans

07.07.2016 - 10:34
Merki Búnaðarbankans fyrir utan gamla útibú bankans í Kringlunni.
 Mynd: RÚV
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hefur skipað Kjartan Bjarna Björgvinsson, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, til að annast rannsókn á þætti þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á tæplega 46 prósenta eignarhluti ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003.

Ályktun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þessa efnis var samþykkt á Alþingi 2. júní síðastliðinn, en gert er ráð fyrir að rannsókninni ljúki fyrir árslok. Ályktun nefndarinnar má rekja til bréfs sem Umboðsmaður Alþingis skrifaði nefndinni, þar sem hann segir að honum hafi áskotnast trúnaðargögn sem varpi ljósi á hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var í kaupum á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Þá lýsti hann sig jafnframt reiðubúinn til að aðstoða Alþingi við rannsókn málsins.

Skipun Kjartans er á grundvelli laga um rannsóknarnefndir, en hann er fyrrverandi aðstoðarmaður Umboðsmanns Alþingis og starfaði um tíma sem aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn. Hann lauk embættisprófi frá Háskóla Íslands árið 2002, LLM prófi frá London School of Economics árið 2006. Hann hefur sinnt stundakennslu við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Bifröst og var um tíma sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík.