Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kjararýrnun eða ekki kjararýrnun?

07.11.2019 - 18:23
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Formaður Fræðagarðs segir að samningur sem fimm félög innan BHM skrifuðu undir þýði ekki kjararýrnun. Atkvæðagreiðslu um samninginn lýkur á morgun. Meginatriði hans eru launahækkanir, stytting vinnuvikunnar, breytingar á reglum um orlof og tvískipt yfirvinna. Tíu BHM félögum, sem eru í samfloti, hefur verið boðinn sams konar samningur. Þau sætta sig ekki við tilboðið.

Launahækkanir undir verðbólguspá

Fyrst er að nefna launaliðinn. Samið er til fjögurra ára og mánaðarlaun hækka UM 68 þúsund krónur á samningstímanum í samræmi við lífskjarasamninginn. Að auki er rætt um kaupmáttarvarðar hækkanir. Niðurstaðan er að algeng hækkun launa á samningstímanum er 12,50%. Fulltrúar félaganna tíu segja að það sem kallað er kaupmáttarvarin hækkun eigi ekkert skylt við kaupmátt eða verðbólgu. Skýringin á þessari hækkun sé að hvert launaþrep hækki til að halda 2,5% mun á milli þeirra.

Anna María Frímannsdóttir, framkvæmdastjóri Sálfræðingafélags Ísland og oddamaður í samninganefnd félaganna tíu segir að tilboð ríkisins sé undir verðbólguspá Hagstofunnar.

„Okkur finnst mikilvægt að okkar hópur fái kaupmáttarvarðar hækkanir. Og það sem liggur á borðinu frá ríkinu núna er undir verðbólguspá Hagstofu Íslands," segir Anna María. Hún segir að það séu vissulega hækkanir í tilboði ríkisins en þær eigi ekkert skylt við kaupmáttarvarðar hækkanir.

Tvennskonar yfirvinna

Í samningi félaganna fimm og tilboðum sem félögin tíu hafa fengið frá ríkinu er gert ráð fyrir að yfirvinna verði flokkuð í yfirvinnu eitt og tvö. Yfirvinna eitt verði öll yfirvinna undir 40 stundum á viku og tvö sú yfirvinna sem unnin er yfir 40 stundir. Yfirvinna 1 er 18% lægri en sú númer tvö. Sams konar ákvæði er að finna í lífskjarasamningnum. Tían sem svo er kölluð kvittar ekki undir þetta.

„Það að breyta yfirvinnuálaginu mundi þýða það að félagsmenn okkar myndu lækka í heildarlaunum og þetta hefði sérstaklega slæm áhrif á þá sem eru í hlutastörfum," segir Anna María.

Anna María bendir á að ef vinnuvikan verði stytt í 36 stundir þýði þetta að fjórar klukkustundir af 40 stundum verði á lægri taxtanum. Reyndar er í viðauka með samningi félaganna fimm kveðið á um að breytingar á vinnutíma eigi ekki að hafa áhrif á laun eða launakostnað stofnana.

Mynd með færslu
Anna María Frímannsdóttir

Fólk geti farið í kaffi og mat

Tilboð ríkisins um styttingu vinnuvikunnar hljóðar upp á að vinnuvikan styttist sannarlega um 13 mínútur á dag eða rétt rúma klukkustund á viku. Hins vegar sé hægt að semja um á viðkomandi stofnun eða vinnustað um meiri styttingu eða niður að 36 stundum með því að fella niður eða að hluta kaffitíma og stytta matmálstíma. Félögin tíu sætta sig ekki við þessa útfærslu.

„Við höfum farið fram á að vinnuvikan verði stytt. Okkur finnst mikilvægt að það verði gert án þess að það verði skerðingar á kaffitímum og neysluhléum fólks. Þannig að okkur finnst mikilvægt að fólk geti farið í kaffi og mat áfram samhliða því að vinnuvikan verði stytt," segir Anna María.

Félögin eru ekki til í að höndla með kaffitímana. Í samningi eða skýringum með samningi félaganna fimm eru taldar upp ýmsar leiðir til að stytta vinnuvikuna. Hægt sé að safna upp styttingunni og í einni sviðsmyndinni væri hægt að eiga frí á föstudögum aðra hverja viku.

Orlofsreglum breytt

Í samningnum er kveðið á um að allir opinberir starfsmenn eigi rétt á 30 daga orlofi. Nú er það þannig að starfsmaður þarf að vera orðinn 38 ára til að öðlast þann rétt. Breytingin er tilkomin vegna tilskipunar frá ESB. Jafnframt er samið um breytingar á vetrarorlofi sem fram að þessu hefur lengst um fjórðung. Nú gildir það einungis ef yfirmaður hefur beðið starfsmann um að taka frí að vetri. Félögin 10 eru alfarið á móti þessu.

Enginn mun búa við kjaraskerðingu

Bragi Skúlason er formaður Fræðagarðs sem er eitt þeirra fimm félaga sem sömdu við ríkið. Spurningin er hvort krónutöluhækkun nægi til að halda í við verðbólguna.

„Ef samningurinn heldur sér einn og sér bara með krónutöluhækkun þá er það ljóst að eftir því sem þú kemst í hærri laun þá er líklegt að hækkunin yfir árið nái ekki að halda kaupmáttarviðmiðum. Þannig að við máttum í raun ekki fara inn á þá braut að semja um kjaraskerðingu fyrir stóran hluta okkar félagsmanna. Við stóðum frammi fyrir því að það yrði niðurstaðan ef við mundum ekki gera samning um eitthvað sem tryggði það. Það er í okkar samningi að við erum að passa upp á það að enginn í okkar félögum búi við kjaraskerðingu á samningstímanum. Þetta erum við að tryggja með samningnum," segir Bragi.

Bragi segir að ef ytri skilyrði verða óhagstæð og verðbólgan rjúki upp aftur, sé ljóst að almenni markaðurinn muni segja upp samningum og BHM félögin muni fylgja á eftir.

„Ef lífskjarasamningurinn heldur og við sjáum að almenn velsæld í þjóðfélaginu eykst þá njótum við þess líka með þessum samningi. Þá er enginn að fá á sig kjaraskerðingu."

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Bragi Skúlason

Vilji til að stytta vinnuvikuna

Það var líka samið um styttingu vinnuvikunnar og breytingar á yfirvinnu. Er það rétt leið? Bragi segir að í fyrrahaust hafi hann rætt við félagsmenn víða um land.

„Þá sögðu menn að ef það er samið á einkamarkaði um eitthvað sem felur í sér hóflegar eða jafnvel mjög litlar hækkanir þá verðum við að sækja inn í vinnutímamálin og stytta vinnuvikuna til að fá eitthvað út úr þessum samningi. Við höfum fylgt því. Við viljum sjá styttingu vinnuvikunnar. Við viljum líka sjá að okkar fólk sem starfar hjá ríkinu sé ekki að vinna óhóflegan vinnutíma. Við viljum líka tryggja að það séu varin þau lífsgæði sem fela það í sér að það sé hægt að lifað sem mest af dagvinnulaunum," segir Bragi. Hann bendir á að í þessum fimm félögum séu fyrst og fremst dagvinnuhópar.

Hikar ekki við að mæla með samningnum

Bragi heldur fast við að samningurinn þýði ekki kjararýrnun.

„Hann þýðir ekki kjararýrnun og ég get mælt með samþykkt hans við mína félagsmenn. Hika ekkert við að gera það. Það er líka ljóst að vegna þess ferlis sem fór af stað frá 31. mars þegar gamli samningurinn rann út . Viðræðurnar voru erfiðar að mörgu leyti og við vorum í samfloti með 12 félögum. Eftir hálft ár þá hefði árangurinn af því samstarfi skilað skilað sér í sirka eina fingurbjörg. Það gekk hvorki né rak. Við þessi fimm félög urðum vegna okkar félagsmanna og hagsmuna þeirra að seilast til þess með öllum ráðum að reyna að ná samkomulagi við ríkið. Annars var ekkert eftir nema að vísa og fara að hugsa um einhverjar aðgerðir til að fylgja kröfunum," segir Bragi.