Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kjararáð lagt niður

11.06.2018 - 21:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi samþykkti í kvöld að leggja kjararáð niður. Forsætisráðherra segist vonast til að lög um að leggja niður kjararáð verði til þess að skapa aukna sátt á vinnumarkaði um launaákvarðanir æðstu embættismanna. Formaður Miðflokksins segir málið sýndarmennsku þegar ekkert sé vitað hvað taki við.

Fjölmörg mál voru afgreidd frá Alþingi í kvöld enda stefnt að þingfrestun á morgun. Er þar bæði um að ræða þingsályktunartillögur og lagafrumvörp frá ríkisstjórn og minnihluta á Alþingi.

Þá varð að lögum í kvöld frumvarp meirihluta efnahagsnefndar um að leggja niður kjararáð en það byggir að hluta á niðurstöðu starfshóps forsætisráðherra um málefni kjararáðs sem skipaður var í janúar. Í fjármálaráðuneytinu er hins vegar unnið að gerð frumvarps þar sem kveðið er á um að ákvörðun launa þeirra sem nú falla undir kjararáð verði hagað með hliðsjón af tillögum starfshópsins.

„Þar var lagt til að fyrirkomulag hér á landi yrði fært til þess sem gerist á Norðurlöndunum þar sem laun æðstu embættismanna eru tengd launaþróun á opinberum markaði. Ég vonast til þess að þetta geti skapað aukna sátt á vinnumarkaði um launaákvarðanir æðstu embættismanna,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir þetta sýndarmennsku. „Þetta mál eins og nokkur önnur mál sem við greiðum atkvæði um hér í kvöld bera öll merki sýndarmennsku. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Virðulegi forseti, gefum okkur bara til dæmis að það sem tæki við væri verra en það fyrirkomulag sem við höfum núna að mati að minnsta kosti einhverra.“

Frumvarpið var samþykkt með 48 atkvæðum, 14 sátu hjá. 
 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV