Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kjarabætur skila sér of seint

Drífa Snædal, forseti ASÍ. - Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Miðstjórn ASÍ telur að breytingar á tekjuskattskerfinu skili sér allt of seint í vasa launafólks sem sé orðið óþreyjufullt eftir kjarabótum. Þá þurfi að beita skattkerfinu enn frekar til að auka jöfnuð í landinu.

Miðstjórn ASÍ kom saman til fundar í morgun þar sem ályktað var um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Miðstjórnin tekur tillögum um þriggja þrepa skattkerfi fagnandi en það valdi verulegum vonbrigðum hversu seint þær koma til framkvæmda.

„Við hefðum náttúrlega viljað sjá skattkerfisbreytingarnar koma fyrr því við vitum að okkar fólk bíður óþreyjufullt eftir þeim og það var hluti af kjarasamningunum. Það er í raun og veru verið að uppfylla kjarasamningana en við höfum alltaf lagt áherslu á að þunginn kæmi sem fyrst,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Kalla eftir auknum álögum á hina efnameiri

Drífa segist einnig hafa áhyggjur af því að ekki sé verið að styrkja tekjustofna ríkisins til að fjármagna velferðarkerfið. Þar er fyrst og fremst horft til skatta á hinna efnameiri.

Þar er hátekjuskattur, eða ofurtekjuskattur. Það er gjald af auðlindum, hvort sem það eru ferðamennskan eða aðrar auðlindir. Það er að vera með betra skattaeftirlit og við höfum lengi bent á að fjármagnstekjuskattur er of lágur á Íslandi.

Ekki forsendubrestur

Miðstjórnin týnir til fleiri atriði. Fjármögnun sjúkrahúsþjónustunnar er sögð ófullnægjandi sem og stuðningur við lífeyrisþega og atvinnuleitendur. Þá er lýst áhyggjum yfir mögulegum veggjöldum sem sagðir eru leggjast þyngst á tekjulægstu hópanna. Þessir vankantar á fjárlagafrumvarpinu gefa þó ekki tilefni til að tala um forsendubrest að mati Drífu.

„Það verður tekin ákvörðun um hvort þessar forsendur haldist á næsta ári og þá verður þetta metið.“