Kjaftfor krakki sem hékk með rónum

Mynd: Rúv / Vera Illugadóttir

Kjaftfor krakki sem hékk með rónum

17.09.2018 - 15:35
Vera Illugadóttir, ein vinsælasta útvarpskona landsins, var mánudagsgestur Núllsins.

Vera er alin upp í miðbæ Reykjavíkur og hefur haldið sig það mestalla tíð. Hún segir að það hafi verið skrautlegt á köflum enda margir góðglaðir á ferli um helgar sem ýmist pissuðu í garð heimilisins, klifruðu upp á þak eða lentu í rifrildi fyrir utan. Það gat verið þreytandi en sem krakki var líka spennandi að kíkja út um gluggann og fylgjast með því sem var í gangi. Þetta eru ekki einu kynni Veru af fullu fólki í æsku, en hún átti það til að heilsa upp á rónana á Austurvelli með vinkonu sinni af og til og spjalla við þá.

Kjaftfor krakki

Í Austurbæjarskóla var Vera duglegur námsmaður en segist hafa verið „leiðinleg týpa” sem reif oft kjaft og þóttist vita betur en kennararnir. Hún segist þó hafa lagast á unglingsárunum og tengir ekki við þessa hegðun í dag, nú sé hún feimin og vilji engan styggja.

„Ég vil biðjast afsökunar á þessu framferði mínu í grunnskóla.“

Eftir Austurbæjarskóla fór hún í Menntaskólann við Hamrahlíð eins og systkini hennar. Hún þekkti engan þegar hún byrjaði og átti erfitt með að finna sér borð, eins og tíðkast að komast á þar, en áfangakerfið átti vel við hana og hún tók til að mynda alla íslenskuáfanga sem í boði voru.

Getur lesið Kóranvers en ekki pantað sér kebab

Vera lærði arabísku í Stokkhólmsháskóla. Hún hafði ferðast um Arabalönd og var áhugasöm um málið. Arabíska er hins vegar mjög erfitt tungumál þar sem ritmálið og talmálið er gjörólíkt og mállýskurnar gífurlega margar. Hún getur því frekar lesið málið en talað það en náði sænskunni vel.

Vera valdi lag til að spila með heitustu indísveitinni í Líbanon. 

Mannætan á Íslandi

Árið 2012 gáfu Vera og Helgi Hrafn Guðmundsson út bók sem fékk titilinn „Svarta bókin”. Bókin er samansafn lagfærðra greina um óhugnað af ýmsu tagi sem birtust í tímaritinu Skakka turninum. Vera hafði skrifað grein um fræga japanska mannætu sem hafði komið til Íslands í frí með tilheyrandi myndum. Sú saga var notuð sem helsta kynningarefni bókarinnar en þegar hún kom úr prentun hafði greinin á einhvern ótrúlegan hátt gleymst.

Átti ekki von á því að þátturinn fengi svona góðar viðtökur

Þetta er ekki í eina skiptið sem Vera hefur sökkt sér í hrylling úr fortíðinni en áhugi hennar á gömlum sögum hefur komið að góðum notum við gerð þáttanna Í ljósi sögunnar sem er vinsælasta hlaðvarpið sem framleitt er fyrir Ríkisútvarpið. Vinsældir þáttanna komu henni skemmtilega á óvart og þótt Vera hafi talið það einn kost þess að vinna í útvarpi að vera ósýnilegur, eru fleiri hlustendur farnir að þekkja hana í sjón. Hún fær ýmsar athugasemdir og tillögur sendar en hún hefur líka fengið ábendingar um að sumar lýsingar séu aðeins of ógeðfelldar. Það er hins vegar margt óhuggulegt sem hefur gerst í sögunni og mikilvægt að fjalla um hlutina eins og þeir gerðust.

Vera Illugadóttir var mánudagsgestur Núllsins. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.