Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kísilverksmiðja eykur losun Íslands um 10%

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Losun á gróðurhúsalofttegundum hér á landi eykst um rúm 10 prósent ef starfsemi verður hafin á ný í kísilverksmiðjunni í Helguvík, sem áður hét United Silicon. Þetta kemur fram í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn fréttastofu. Dótturfélag Arion banka, Stakksberg, vinnur nú að endurbótum á verksmiðjunni og ætlar að selja hana.

Áætluð árleg losun verksmiðjunnar á koltvísýringi (CO2) er 550.000 tonn, miðað við hámarks framleiðslu. Núverandi losunarleyfi, miðast við að ársframleiðslan sé 100.000 tonn. Sé miðað við heildarlosun hér á landi árið 2017 eykst hún um rúmlega 10 prósent þegar starfsemin verður hafin á ný.

Verksmiðja Thorsil stærri en United Silicon

Innan nokkurra ára gæti farið svo að kísilverksmiðja Stakksbergs verði ekki sú eina í Helguvík í Reykjanesbæ því að fyrirtækið Thorsil áformar að reisa enn stærri verksmiðju þar.

Verksmiðja Thorsil fékk starfsleyfi frá Umhverfisstofnun árið 2017. Losun þeirrar verksmiðju verður enn meiri, eða 605.000 tonn af koltvísýringi (CO2) á ári, sé miðað við hámarksframleiðslu á ári sem er 110.000 tonn. Í svari Umhverfisstofnunar segir að þar sem engin starfsemi sé í verksmiðjunum þurfi að hafa í huga að þessar tölur byggi einungis á fræðilegri getu.

Mynd með færslu
Thorsil áætlar að reisa kísilverksmiðju í Helguvík.  Mynd: Úr matsskýrslu Mannvits

Stefnt að 43% minnkun á losun í evrópsku viðskiptakerfi

Stjórnvöld hér á landi hafa sett það markmið að minnka losun, innan ramma Parísarsamningsins, um 40 prósent árið 2030 miðað við það sem hún var árið 1990. Ólíkar reglur gilda um losun. Hluti hennar fellur undir skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á, önnur undir alþjóðlegar stofnanir á sviði flugmála og siglinga. Losun stóriðjunnar fellur undir evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir og er stefnt að því að heildarlosunin innan kerfisins hafi minnkað um 43 prósent árið 2030, miðað við það sem hún var árið 1990. 

Losun frá stóriðju jókst um 106% frá 1990

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem gildir til ársins 2030 segir að flest bendi til þess að losun frá stóriðju eigi eftir að aukast verulega fram til ársins 2030. Hún jókst um 106 prósent frá árinu 1990 til 2016. 

Nýlega tók kísilverksmiðja til starfa á Bakka við Húsavík og svo gæti farið að starfsemi verði hafin í verksmiðjunum tveimur í Helguvík. Þá hafi fleiri stóriðjukostir verið í undirbúningi. „Verulegur samdráttur í losun í þessum geira verður vart mögulegur nema með tilkomu nýrrar tækni, svo sem óvirkra rafskauta í álframleiðslu eða söfnun og niðurdælingu koldíoxíðs,“ segir í aðgerðaáætluninni.