Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kirsuber ræktuð á „hjara veraldar“

07.07.2019 - 21:00
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Það má ekki gleyma því að berin eru ræktuð á hjara veraldar norður á Ströndum, segir kirsuberjaræktandi í Bjarnarfirði. Það styttist í uppskeru sem hleypur á hundruðum kílóa.

Hægt að uppskera 30 kíló á einu tré

Það eru örfáar vikur og dagar í kirsuberjauppskeru í gróðurhúsinu á Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum. „Elstu trén geta gefið mér upp í 30 [kíló] en kannski svona meðaltalið sé kannski 15 kíló á tré,“ segir Finnur Ólafsson, kirsuberjaræktandi á Svanshóli í Bjarnarfirði.

Þarf skjól

Í gróðurhúsinu vaxa epli, perur, plómur, fjöldi berja og blóma og líka salat. „[Ég] hef síðustu ár verið að færa mig út í kirsuber því þau eru bara einstaklega góð og þægileg að rækta í svona gróðurhúsum,“ segir Finnur. „Þetta er ekki upphitað gróðurhús, þetta er bara með þunnum plastdúk, gróðurhúsaplastdúk,“ segir Finnur. Hann segir að aðallega þurfi skjól, rými, áhuga og ögn af umhyggju til ræktunarinnar. Svo er hann með humlur til að frjóvga blómin. „Fyrstu árin þegar ég var með pensil að leika býflugu þá uppgötvaðist strax hversu mikið starf þetta er,“ segir Finnur.

Fleiri hundruð kíló af kirsuberjum

Ræktunin er áhugamál sem vatt upp á sig. Kirsuberjatrén eru á fimmta tug og kirsuberjauppskeran hleypur á hundruðum kílóa. Berin eru borðuð á bænum en líka seld í næsta nágrenni og sultuð. „En svo er náttrúlega draumurinn að reyna að koma þessu víðar því þetta er ekki sama vara og við erum að kaupa innflutt frá heitari löndum. Mér finnst þessi bragðmeiri, ferskari- og maður má ekki gleyma því að þetta er ræktað á hjara veraldar norður á Ströndum,“ segir Finnur.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður