Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kirkjum læst vegna slæmrar umgengni ferðamanna

15.06.2016 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Kirkjunum á Reykhólum og í Flatey á Breiðafirði hefur verið læst vegna slæmrar umgengni ferðamanna. Sóknarprestur í Reykhólaprestakalli segir mjög leiðinlegt að grípa þurfi til slíkra aðgerða þar sem fólk á að geta leitað í kirkjur þegar það vill og þarf.

Óboðinn gestur í kirkjunni í Flatey

Aðkoman var ljót þegar bóndi í Flatey kom að kirkjunni í eynni; söfnunarbaukurinn hafði verið brotinn upp og úr honum stolið. Á Reykhólavefnum kemur fram að óboðinn gestur hafi dvalið næturlangt í kirkjunni og sóðað þar allt út. Bónda brá og læsti kirkjunni. 

Nokkur sambærileg atvik

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist. Í byrjun júní greindi vísir.is frá því hvernig ferðamenn höfðu komið sér fyrir í Reykhólakirkju, gist og eldað mat á prímus. Þá var einnig fjallað um sambærilegt atvik í sömu kirkju þegar Hildur Björk Hörpudóttir, sóknarprestur í Reykhólaprestakalli, kom að fólki sem hafði þvegið allt sitt hafurtask í vöskum kirkjunnar og dreift til þerris yfir kirkjubekkina. Hildur segir að svo virðist vera sem að fólk sé ekki tilbúið að greiða fyrir almenna þjónustu. „Við horfum til dæmis á það að það er bara örstutt héðan úr kirkjunni niður að tjaldsvæði þar sem er frábært þjónustuhús með baðherbergi og öllu þar sem hefði verið hægt að elda og fara á klósettið og þvo og svona.“

Kirkjur eiga að vera fyrir alla

Hildi finnst erfiðast að horfa upp á þá vanvirðingu sem felst í því að fara illa með kirkjurnar og muni þeirra. „Það er orðið alveg nauðsynlegt að við förum að ræða lausnir á þessu þar sem það er mjög leiðinlegt og sorglegt að það þurfi að loka kirkjunni því kirkjunnar eiga jú að vera fyrir alla og maður á að geta leitað í kirkjuna sína þegar maður vill og þarf.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður