Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kirkjan fái niðurskurðinn endurgreiddan

03.01.2015 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins hefur lagt til að þjóðkirkjan fái endurgreiddan þann niðurskurð sem hún tók á sig umfram aðrar stofnanir eftir hrun.

Sú upphæð nemur um 660 milljónum króna. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er hins vegar gert ráð fyrir að þjóðkirkjan fái aðeins lítið brot af þeirri fjárhæð. Biskup skrifaði forsætisráðherra nýverið bréf þar sem hún varaði við því að sóknargjöld yrðu skorin meira niður. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að málið verði tekið til meðferðar í innanríkisráðuneytinu og gerir ráð fyrir að samkomulag náist um endurgreiðslu sóknargjalda. 

„Þetta bréf var skrifað að beiðni minni þar sem ég hafði orðið þess áskynja að kirkjan teldi vanta nokkuð upp á fjárveitingar. Og vísaði meðal annars í samkomulag,“ segir forsætisráðherra. „Kirkjan hefur gefið töluvert eftir af því fjármagni sem hún hefur átt tilkall til á undanförnum árum, og í raun og veru alveg frá því í efnahagshruninu.“ 

Biskup bendir á það í bréfinu að sóknargjöldin séu bundin í lög, og að það þurfi að fara eftir þeim lögum. Tekurðu undir það?

„Ég tek undir að kirkjan hefur sýnt mikið umburðarlyndi og fórnfýsi á undanförnum árum. Og gefið eftir töluvert fjármagn sem hún hefði getað gert tilkall til. Þannig að það er eitthvað sem þarf að skoða með kirkjunni, að menn gangi ekki um of á lagið. En ég hef sjálfur, á undanförnum árum, þakkað kirkjunni fyrir það framlag sem hún hefur látið af hendi rakna til uppbyggingar efnahags landsins. Og það er sjálfsagt að hún njóti þess í framhaldinu.“

Þannig að þið stefnið að því að endurgreiða kirkjunni þessi sóknargjöld?

Þetta er vinna sem hefur verið í gangi á milli kirkjunnar og innanríkisráðuneytisins. Og ég geri ráð fyrir að menn leysi úr þessu í góðu samráði þar.“

[email protected]