Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kira kira hleypir hestunum út

Mynd: Pétur Grétarsson / Kira Kira

Kira kira hleypir hestunum út

10.07.2019 - 14:35

Höfundar

Þótt árið sé rétt rúmlega hálfnað hefur draumóra- og tónlistarkonan Kira kira þegar gefið út þrjár plötur það sem af er ári. Hún trúir á kraftaverkin, það saklausa í fólki og segir ekkert jafn sorglegt og illa nýtt og lokað píanó.

Frá Skemmtihúsinu svokallaða á Laufásveginum berst gjarnan pönnukökuilmur og ljúfir tónar. Það er tónlistarkonan Kristín Björk Kristjánsdóttir eða Kira kira sem ber ábyrgð á þessari dýrð en hún hefur getið sér góðs í tónlistarheiminum fyrir seiðandi söngrödd og draumkennda tónlist sem hún semur að miklu leyti í göldróttu húsinu. Nýverið kom út glæný plata frá henni sem nefnist Una en á árinu hefur komið frá henni vínylplata með tónlistinni úr kvikmyndinni Sumarbörn sem hún gerði með tónlistarmanninum Hermigervli og Motions Like These sem hún vann með hinum bandaríska Eskmo. Í því samstarfi fær hún útrás fyrir villiköttinn. Hún hefur nú um hríð verið með annan fótinn í og í stöðugu sambandi við sólríku eyðimörkina í Kaliforníu en hún semur tónlistina fyrir teiknimyndaþáttinn Dream Corp Llc á Cartoon network sem er í vísindaskáldastíl og var að gera samning um þriðju þáttaröðina.

Óttaleysið er frjór jarðvegur

Kira segir þessa miklu framleiðni hennar á árinu vera óttaleysinu að þakka. En óttaleysið kom ekki til hennar sjálfkrafa. „Ég fór gegnum umbreytingu. Ég lenti hálfgerðum í sköpunar-skurði en komst upp úr honum með hjálp góðra vina. Ég þurfti líka að komast yfir sjálfa mig því við getum, sérstaklega við tónlistarfólk, verið mikið fyrir okkur sjálfum. Mér finnst ég hafa fengið þá gjöf að læra að standa við bakið á mér og hvetja mig áfram. Það er tilfinningin á Unu, að vera í tæru flæði en ekki fyrir.“

Reiknar með kraftaverki

Platan rennur afar ljúflega í gegn og titlarnir á plötunni eru ljóðrænir í stíl við draumkennda tónana. Lagið Holding space for the unimaginable fjallar um að geyma rými fyrir hið óhugsanlega. Kira kira segir það hluta af þeirri andlegu vegferð sem hún hefur verið í undanfarið. „Þetta snýst um að geyma pláss fyrir það sem þér hefur enn ekki dottið í hug en reikna með kraftaverki,“ segir hún dreymin. „Ég er ekki með ímyndunarafl til að segja fyrir fram hvernig máttarvöldin munu spila út sínum spilum en það er mikilvægt að eiga til pláss fyrir leynda möguleikann sem á enn eftir að birtast.“

Það þarf að spila á þessi píanó

Á plötunni er líka að finna möntru sem tónlistarkonan fær að stóru leyti lánaða úr bók sem kallast A course in miracle og er kanóna í andlegum bókmenntum. „Þar sem ég hnaut um þessi orð í bókinni varð ég fyrir vakningu sem var óafturkræf. Ég fann það sem orðin sögðu um leið og ég las þau.“

Kristín segir að kraftaverkið sé í eðli sínu sviss sem knúinn er frá ótta í ást. Hún leggur sig fram við að hafa hann rétt stilltan og þar kemur tónlistariðkun sterk inn. En hvernig tekst Kiru kiru að losa sig við óttann og breyta honum í ást? „Mér finnst betra að reikna með því að allir séu saklausir og vilji þér vel. Að trúa því að lífið komi til með að blessast finnst mér miklu hjálplegra en að búast við móðu og myrkri, dauða og djöfli í hverju skrefi. Krabbamein er búð til úr því og það er ekki þægilegt ástand að búa í.“

Ætli hún nálgist pönnukökubaksturinn eins og tónlistina? „Já,“ svarar hún brosandi og mundar pönnuna. „Ég er hrædd um að pannan stríði mér og það gerist bara ef hún er ekki í stífri notkun.“ Kira kira segir að þetta gildi í tónlist líka. „Það þarf að spila á þessi píanó. Lokuð píanó eru bara sorgleg. Rétt eins og manneskja sem fær aldrei að opna augun.“

Að sigla fram hjá öryggi og finna paradís

Platan Motions like these er afar frábrugðin Unu en þar fær Kira kira útrás fyrir villiköttinn í sér, sprengikraft og prakkaraskap. „Við Eskmo vinnum svo vel saman. Við elskum að taka synþa, blanda saman við ístrukk og búa til takt úr rigningunni. Platan er samin í spuna en svo hleypum við hestunum út.“

Kira og Eskmo lögðu upp með það við gerð þessarar plötu að samstarfið yrði ekki málamiðlunarmiðjumoð. „Við lofuðum hvort öðru að hætta ekki fyrr en platan væri orðin betri en besta Eskmo-platan og besta Kiru-platan,“ segir hún og hlær. „Hvort sem það tókst eða ekki þá brunnum við fyrir þennan ásetning og settum allt sem við áttum í hana.“ Kira segir skemmtilegt að vinna í slíku umhverfi. „Þegar dagurinn kemur er það eins og að finna gullna kaleikinn þegar allt kemur heim og saman og fer að ljóma. Það er svo gott að vita að þú sigldir í gegnum einhvern stað þar sem þú hefðir getað hætt, þú hefðir getað hoppað af og farið um borð á eyju með engum pálmatrjám og kókoshnetum en í staðinn fyrir að staldra við sigldir þú fram hjá og fannst paradís.“

Rætt var við Kiru kiru í Hátalaranum um nýju plöturnar, ástina, óttann og leikgleðina. Viðtalið og lög með tónlistarkonunni má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nýr tónlistarhraðall ýtir hugmyndum úr vör

Tónlist

Miðsumartónlist á Rás 1

Tónlist

Mannfuglar gera tónlist úr hljóðum fugla

Tónlist

Hálf öld frá hátíð ástar, friðar og tónlistar