Kínverjar draga sig út úr Ólympíuforkeppninni

epa08039579 Zhang Haixia of China in action during the IHF Women's World Championship handball match between China and Sweden in Kumamoto, Japan, 02 December 2019.  EPA-EFE/HIROSHI YAMAMURA
 Mynd: EPA

Kínverjar draga sig út úr Ólympíuforkeppninni

04.02.2020 - 10:43
Kínverska kvennalandsliðið í handbolta mun ekki taka sæti í forkeppninni fyrir Ólympíuleikana í Tókýó í sumar. Ástæðan er nýja kórónaveiran sem á upptök sín í kínversku borginni Wuhan.

Kína átti að leika í riðli með Rússlandi, Serbíu og Ungverjalandi 20.-22. mars þar sem tvö efstu liðin komast inn á Ólympíuleikana. Þetta breytist hins vegar væntanlega núna. Kínverjar komust inn í Ólympíuforkeppnina sem næstefsta liðið frá Asíuforkeppni leikanna. Suður-Kórea vann þá forkeppni og tryggði sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í sumar, Kína varð í 2. sæti og Norður-Kórea í 3. sæti og fengu þau bæði sæti í Ólympíuforkepninni um síðustu sex lausu sætin inn á leikana.

Norður-Kórea dró sig hins vegar út úr Ólympíuforkeppninni þann 10. janúar og fékk Kasakastan sem endaði í 4. sæti Asíuforkeppninnar lausa sætið sem myndaðist í Ólympíuforkeppninni. Nú er Kasakstan skyndilega orðið efsta liðið úr Asíuforkeppninni sem keppir í Ólympíuforkeppninni í mars og fer þar með inn í riðilinn með Rússum, Serbum og Ungverjum.

Hong Kong sem varð í 5. sæti Asíuforkeppninnar hefur verið boðið af IHF, Alþjóða handknattleikssambandinu að taka sæti Kína í Ólympíuforkeppninni og færi þá inn í riðilinn með Noregi, Svartfjallalandi og Rúmeníu sem leikinn verður í Podgorica, höfuðborg Svartfjallalands 20. - 22. mars. Greint var frá þessu á heimasíðu norska handknattleikssambandsins í dag.