Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kim hæstánægður með bréf frá Trump

23.06.2019 - 01:25
epa07664861 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows North Korean Supreme Leader Kim Jong-Un (L) together with his wife Ri Sol-Ju (R) sees off President Xi Jinping and his wife Peng Liyuan at Pyongyang International Airport, in Pyongyang, North Korea, 21 June 2019 (issued 22 June 2019). President Xi finished a state visit to North Korea.  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - KCNA
Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, barst nýlega bréf frá Bandaríkjaforseta. Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu hefur eftir Kim að efni bréfsins hafi verið einstaklega gott. Kim er sagður ætla að gaumgæfa stórkostlegt innihald bréfsins af virðingu við ótrúlegt hugrekki og pólitíska dómgreind Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, segir jafnframt í grein KCNA um bréfið.

Eftir sögulega þíðu í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu með leiðtogafundi þeirra Kim og Trumps í Singapúr í fyrrasumar virtist allt komið í sama farveg og áður eftir árangurslausan fund þeirra í Víetnam í vetur. Þar átti að semja um leiðir til þess að afkjarnorkuvæða Kóreuskaga og aflétta viðskiptabanni gegn Norður-Kóreu. Kim og samninganefnd hans var ósátt við kröfu Bandaríkjanna um að eyða öllum kjarnavopnum sínum áður en alþjóðlegum viðskiptaþvingunum yrði aflétt og lauk ráðstefnunni í Hanoi nokkrum klukkustundum áður en ráðgert hafði verið.

Trump er væntanlegur til Asíu í næstu viku. Þar heldur hann til fundar við Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu á föstudag og laugardag. Auk þess er búist við því að hann setjist niður með Xi Jinping, forseta Kína, í Japan. Xi er nýkominn úr þriggja daga opinberri heimsókn frá Norður-Kóreu, og greinir AP fréttastofan frá því að mögulega færi hann Trump skilaboð frá Kim varðandi kjarnorkuviðræður Bandaríkjanna og Norður-Kóreu.

Kim sagði sjálfur eftir fundinn í Hanoi að bandarísk stjórnvöld hefðu frest til ársloka til að komast að samkomulagi um ásættanlega skilmála í viðræðum ríkjanna.