Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kickstarterbræður skráðir fyrir félagi Zúista

01.12.2015 - 12:02
Mynd með færslu
Annar bræðranna sem var til umfjöllunar í Kastljósi í tengslum við fjáröflun á Kickstarter hefur verið ákærður fyrir umfangsmikil fjársvik. Mynd: RÚV - Kastljós
Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir, sem grunaðir eru um umfangsmikil fjármunabrot og hafa leitt stórar hópfjármagnanir á netinu, eru skráðir forsvarsmenn trúfélags Zúista, samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá RSK. Félagið hefur undanfarið safnað fjölda meðlima og er trúfélagið nú stærra en félag múslima á Íslandi. Talsmaður Zúista segir lögmann félagsins vinna að stofnun nýs rekstrarfélags en neitar að gefa upp nafn hans. Engir peningar séu komnir til félagsins.
Félag Zúista á Íslandi var stofnað fyrir tveimur árum en hafði litla starfsemi þar til í haust. Síðan hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg og er nú orðið áttunda stærsta trúfélag landsins. Sóknarbörn í félaginu eru nú hátt í 1200, næstum því tvisvar sinnum fjölmennari en söfnuður Votta Jehóva á Íslandi. Félagið hefur ákveðið að endurgreiða meðlimum sínum sóknargjöld sín, sem innheimt eru af ríkinu en renna svo til trúfélaga viðkomandi. Enda er félagsskapnum ekki síst ætlað að vekja upp umræðu um trúfrelsismál. Á heimasíðu félagsins segir:
Zúistar styðja fullt og óskorað frelsi til trúariðkunar og trúleysis. Höfuðmarkmið Zúista er að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög og að núverandi gagnagrunnur yfir trúfélagaaðild landsmanna verði lagður af.  
Á heimasíðu Zúista er Ísak Andri Ólafsson sagður formaður félagsins og „æðstiprestur“ þess. Auk hans er fimm manns í stjórn félagsins, sem sagt er heita Zuism trúfélag. Í fyrirtækjaskrá er félagið þó skráð undir stjórn þriggja annarra einstaklinga. Bræðranna Ágústar Arnars Ágústssonar, sem sagður er stjórnarformaður þess, og Einars Ágústssonar sem sagður er stjórnarmaður þess.
 
Eins og fram kom í Kastljósi nýverið hafa bræðurnir verið til rannsóknar vegna meintra fjármálabrota hér á landi um nokkurt skeið. Þeir hafa safnað háum fjárhæðum vegna nýsköpunarverkefna á síðunni Kickstarter. Þeir Einar og Ágúst Arnar Ágústssynir eru mennirnir á bak við fyrirtækið Janulus og reyndar fleiri fyrirtæki, svo sem Skajaquoda. Á vefsíðunni Kickstarter hafa þeir kynnt þrjú verkefni á vegum þessara fyrirtækja og óskað eftir fjármögnun vegna hönnunar og framleiðslu. Um er að ræða sérstaka sólarrafhlöðu sem fest er á ólar á bakpoka, tengisnúru sem þeir segja að dugi í raun fyrir allan gagnaflutning og svo vindmyllu sem koma á í nokkrum stærðum. Samkvæmt upplýsingum á síðunni hefur fjármögnun verkefnanna gengið vel.

Samkvæmt Kickstarter söfnuðust tæpir hundrað þúsund dollarar vegna TOB snúrunnar, um 19 þúsund vegna sólar rafhlöðunnar og 75 þúsund í fyrri umferð söfnunar vegna vindmylluverkefnisins Trinity.

Eftir vel heppnaða söfnun var ákveðið að fara í aðra söfnun til að þróa Trinity enn frekar. Sú söfnun var komin í um 150 þúsund dollara þegar Kickstarter lokaði henni. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Kickstarter þarf töluvert til að söfnun sé lokað, til að mynda að rangar upplýsingar séu gefnar um verkefnið, að grunur leiki á um að blekking sé viðhöfð varðandi söfnun peninganna eða að í raun sé verið að kynna vörur sem aðrir hafi framleitt. 

Ísak Andri Ólafsson, talsmaður Zúista, sagði í samtali við Kastljós að bræðurnir tengdust ekki félaginu í dag en þeir hefðu þó stofnað félagið. Hann kvaðst ekki vita hvort trúfélag Zúista væri enn rekið á kennitölu félagsins sem bræðurnir stýra enn samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Ísak segir að endurskoðandi og lögmaður vinni nú að því að stofna nýtt rekstrarfélag um trúfélagið. Ísak vildi ekki gefa upp nöfn endurskoðandans eða lögmannsins og sagðist þurfa að bera erindið undir stjórn. Hann tók jafnframt fram að hann hefði engan aðgang að fjármálum félagsins og að nokkuð væri í að peningar kæmu inn í trúfélagið. Samkvæmt upplýsingum frá Zúistum stendur til að endurgreiða fólki félagsgjöld og gefa til góðgerðarmála það sem út af stendur.

baldvinb's picture
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður
helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV