Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Khan kosinn forsætisráðherra Pakistan

17.08.2018 - 14:37
Erlent · Asía · Pakistan · Stjórnmál
epa06951067 A handout photo made available by the Pakistani Press Information Department shows Member of National Assembly (lower house of the parliament), Imran Khan, of Pakistan Tehrik-e-Insaf, casting his vote for the election of the Speaker of the
 Mynd: EPA-EFE - PID HANDOUT
Imran Khan var í dag kosinn forsætisráðherra Pakistan af þingi landsins en flokkur hans Pakistanska réttlætishreyfingin vann stórsigur í kosningum 25. júlí. Khan sver embættiseið á morgun og myndar í kjölfarið ríkisstjórn.

Khan hefur verið í stjórnarandstöðu í 22 ár. Áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum vann hann sér það helst til frægðar að leiða pakistanska landsliðið til sigurs á heimsmeistaramótinu í krikket í Ástralíu árið 1992.

Varð Khan þjóðhetja í kjölfarið en þetta var í fyrsta skipti sem Pakistan varð heimsmeistari í íþróttinni, sem er sú langtum vinsælasta í landinu.

Í dag fór fram atkvæðagreiðsla á pakistanska þinginu um hver tæki við embætti forsætisráðherra af Shahid Khaqan Abbasi, sem tilheyrir Pakistanska múslimabandalaginu. 

Sigraði Khan höfuðandstæðing sinn Shehbaz Sharif, formann Pakistanska múslimabandalagsins, með 176 atkvæðum gegn 96 samkvæmt frétt Al Jazeera. Forseti þingsins þurfti að gera hlé á þingstörfum um stund því andstæðingar forsætisráðherrans tilvonandi tóku úrslitunum afar illa.

Khan stendur frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni. Efnahagur Pakistan er í slæmu ásigkomulagi, viðskiptahalli eykst hratt, skuldastaða ríkisins hefur versnað mjög á undanförnum misserum og gjaldeyrisforðinn fer hratt minnkandi.

Auk þess eru hryðjuverkárásir tíðar í landinu - en hundruð féllu í slíkum árásum í aðdraganda kosninganna.