Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Keyptu 40 milljóna króna vél sem þau nota ekki

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Tvö sveitarfélög sem jafnframt eru eigendur Sorpu nýta ekki rúmlega fjörutíu milljóna króna vélbúnað sem byggðarsamlagið keypti til flokkunar á plasti. Stjórnarformaður Sorpu telur brýnt að samræma flokkunaraðferðir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Núna er plastrusl ýmist sett í græna, bláa eða gráa tunnu eftir því hvar er drepið niður á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir sem búa í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og á Seltjarnarnesi geta sett plastrusl í poka og í gráu tunnuna fyrir heimilissorp. Þeir sem búa í Reykjavík þurfa að leigja tunnu undir plast, fara með það í grenndargám eða á endurvinnslustöð. Þeir sem búa í Kópavogi setja plastið í bláu tunnuna með pappírnum. Plastið fer þannig ýmist í grænar, bláar eða gráar tunnur eftir því hvar drepið er niður á höfuðborgarsvæðinu. Umhverfisráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að ekki gengi að hafa fyrirkomulagið með svo ólíkum hætti.

Hagkvæmast að sorpið fari í gráu tunnuna

Tækniráð Sorpu komst að þeirri niðurstöðu að hagkvæmasta leiðin fyrir sveitarfélög væri að íbúar settu plast í pokum í gráu tunnuna og að það yrði svo flokkað í Gufunesi með vélrænni flokkun. Keypt var vél, sem notar vind til að skilja plastið frá öðru sorpi. Hún kostaði rúmar fjörutíu milljónir króna. Í skriflegu svari yfirverkfræðings Sorpu við fyrirspurn fréttastofu RÚV, kemur fram að vindflokkunarvélin myndi borga sig upp ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nýttu hana en það gera þau ekki. Reykjavík og Kópavogur nota aðrar aðferðir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisráðuneytið
Birkir Jón Jónsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra heimsóttu Vestfirði í september.

Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi og stjórnarformaður Sorpu, segir að Kópavogur hafi óskað eftir fundi með öðrum sveitarfélögum um samræmingu á plasthirðu.

„Nei, þetta er ekki ásættanlegt. Þetta er bæði ruglingslegt og óskilvirkt fyrirkomulag. Við höfum í bæjarstjórn Kópavogs ályktað og bókað um það að bjóða öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til viðtals um það hvernig við getum samræmt flokkun sorps á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Birkir Jón. Hann býst við að fundurinn verði fljótlega.

Það skýtur mjög skökku við að bæði Reykjavíkurborg og Kópavogsbær ráðist í að kaupa þennan dýra vindflokkara en nota hann svo ekki. Það hlýtur að vera slæm fjárfesting fyrir sveitarfélög að kaupa eitthvað og nota það svo ekki?

„Hvert og eitt sveitarfélag hefur sjálfsákvörðunarrétt hvað varðar þessi mál en eins og ég sagði og segi enn, nú erum við að fara að taka í gagnið gas- og jarðgerðarstöð og á þeim tímamótum finnst mér brýnt að sveitarfélögin ræði saman með hvaða hætti og hvernig sé best að halda á þessum málum til framtíðar bæði út frá umhverfsilegum sjónarmiðum en ekki síður út frá rekstrarlegum forsendum vegna þess að þessi málaflokkur er að þyngjast hvað var varðar útgjöld sveitarfélaga,“ segir Birkir Jón.

Reykvíkingar greiða 9.300 fyrir plasttunnu

Í Reykjavík getur fólk leigt sér græna tunnu undir plastrusl fyrir 9.300 krónur á ári. Í svari yfirverkfræðins Sorpu kemur jafnframt fram að Kópavogur hafi tekið tilboði Íslenska Gámafélagsins um tilraunaverkefni um að setja plast í bláar tunnur, tvöfalda hirðutíðni og handflokka plast frá pappír. Hvers vegna nýtir Kópavogur ekki vindflokkarann?

„Þetta var ákvörðun sem var tekin á síðasta kjörtímabili. Það er nú svo að hvert sveitarfélag telur að sín flokkun sé sú besta sem fyrirfinnst,“ segir Birkir Jón.

En telur Birkir Jón að öll sex sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu láta plastruslið fara í gráu tunnunar og nýta vindflokkarann? 

„Ég ætla svo sem ekkert að úttala mig um hvað sé best fyrr en við erum búin að eiga þetta samtal þvert á sveitarfélög,“ segir Birkir Jón.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri hjá Sorpu, sagði í fréttum RÚV í gær að þeir sem selji þjónustu þrýsti á sveitarfélögin um að kaupa þjónustu þeirra. Eru einhver önnur öfl en Sorpa búin að þrýsta á sveitarfélögin?

„Ég kannast nú ekki við það sjálfur. Hins vegar er samkeppni á þessum markaði,“ segir Birkir Jón.