Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Keypti óvart gulláskrift á Tinder eftir skilnaðinn

Mynd: RÚV / RÚV

Keypti óvart gulláskrift á Tinder eftir skilnaðinn

25.11.2019 - 15:27

Höfundar

„Ég fékk lánað Visakortið hjá systur minni en gleymdi að skila því svo hún og maðurinn hennar voru að borga rándýra gulláskrift á meðan ég var sjálf í nándarkeng,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur sem fjallar um hjónaskilnað á einlægan hátt í nýrri skáldsögu.

Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur er ein umtalaðasta skáldsagan í jólabókaflóði ársins. Í henni fjallar höfundur opinskátt um hjónaskilnað sem hún gekk í gegnum nýverið eftir átján ára hjónaband. Hún segir í samtali við Sigmar Guðmundsson og Huldu Geirsdóttur í Morgunútvarpinu að óraunveruleikatilfinningin sem fylgi hjónaskilnaði hafi knúið hana áfram til að skrifa söguna. „Skrifin hafa alltaf verið mín leið til að skilja veruleikann þegar ég upplifi hrjóstrugar og flóknar tilfinningar,“ segir hún.

Fleiri svör í æskunni en hjónabandinu

Líf Auðar komst í verulegt uppnám og rót varð á tilverunni og tilfinningum eftir skilnaðinn, rót sem knúði hana til að fanga veruleikann í orð og greina hann með lyklaborðið að vopni. Hún fór fljótlega í skrifunum og samtölum við sálfræðing og vini sína að skoða hvaða áhrif bakgrunnur hvers manns geti haft á áföll sem verða á lífsleiðinni og fjallar hún því einnig um uppvöxtinn og áföll barnæskunnar í bókinni. „Upphaflega átti þessi saga að fanga augnablikið en á endanum verður hún bæði um áföll og afleiðingar þeirra. Ég byrjaði í núinu en er svo allt í einu komin í barnæskuna og komst að því að það voru fleiri svör við þessu í fortíðinni en síðustu árum hjónabandsins,“ segir Auður. Í hjónabandinu áttaði hún sig einnig á því að hún hefði fundið ákveðna höfn eftir ráðvillu unglingsáranna sem lét aftur á sér kræla með síðbúnu gelgjuskeiði eftir að hjónabandinu lauk. Hún segir marga í kringum sig hafa tengt við þær tilfinningar og fundið unglinginn í sér í sömu sporum. „Ég fann á fólki í kringum mig að eftir að koma úr löngu hjónabandi urðu þau aftur eins og unglingar,“ segir hún kímin. „Munurinn þó á okkur og unglingunum er að nú höfum við tækifæri til að greina þetta.“

Sjokk að finna þessa manneskju aftur

Skilnaðurinn hafði líka ýmsar breytingar í för með sér fyrir Auði sem byrjaði til dæmis að stunda bari miðbæjarins eftir að hafa vart stigið fæti inn á öldurhús árum saman. „Það er algjör frumskógur að detta í atferli sem maður var í ungur og sjokk að komast að því að þessi manneskja er þarna enn þá,“ segir hún. „Ég fór til dæmis aldrei á barinn í hjónabandi, ég var bara að elda mat og fara út að borða. Allt í einu er maður kominn í þetta. Fólk er að leita að nánd á börunum en er með nándarótta á sama tíma og missir tökin því það er smeykt við eigin kenndir og krambúlerað á lífinu.“

„Það á ekki að vera tabú að skilja“

Margir myndu líklega eiga erfitt með að skrifa um svo persónulega hluti en Auður segist ekki hafa fundið fyrir neinni feimni gagnvart opinberuninni. „Það fylgir því engin blygðun að greina þetta því þetta er sammannleg upplifun. Kannski var líka ætlunin með bókinni að skrifa sig og aðra undan skömminni,“ segir hún og bætir því við að þrátt fyrir að skilnaðinum fylgi sárar tilfinningar og erfiðar þá þyki henni vænt um þennan tíma og árin sem hún var í hjónabandi. „Ég hefði aldrei orðið ég án fyrrverandi mannsins míns og ég er þakklát fyrir að hafa átt átján ár í hjónabandi og mörg góð,“ segir hún. „Það á ekki að vera tabú að skilja. Tilfinningar breytast og allskonar gerist.“

Þó að umfjöllunarefnið sé viðkvæmt og ýmsir komi við sögu í frásögninni þá upplifði Auður ekkert skilningsleysi frá manninum sínum fyrrverandi eða þeim persónum úr lífi hennar sem skjóta upp kollinum í bókinni. „Ég er svo gæfusöm að vera gift manni sem hefur sjálfur skrifað ævisögur og hefur skilning umfram marga á þessu. Ég gaf mér leyfi til að skrifa þetta eins og ég þurfti að skrifa það sjálf en bauð honum að lesa. Hann vildi hins vegar lesa bókina bara þegar hún kæmi úr prentun,“ sem hann gerði og var sáttur með útkomuna. „Hann las bókina þegar hún kom út og er bara kátur.“

Samfélagsmiðlar og Tinder

Það var fleira en barirnir og unglingurinn innra sem Auður átti endurkynni við eftir skilnaðinn því hún byrjaði líka að uppgötva samfélagsmiðla á nýjan hátt. Hún prófaði jafnvel smáforritið Tinder í eitt kvöld. „Ég fékk lánað Visakortið hjá systur minni en gleymdi að skila því svo hún og maðurinn hennar voru að borga rándýra gulláskrift á Tinder á meðan ég var í nándarkeng,“ segir hún og skellihlær. 

Allt viðtalið við Auði Jóns úr Síðdegisútvarpinu má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Við slúðrum líka við frændsystkinin“

Bókmenntir

Óraunverulegt að ganga í gegnum skilnað

Menningarefni

Geðveiki er gróðrarstía fyrir brandara