Keypti bátinn aftur eftir uppboð

Mynd með færslu
 Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn í Kóp
Bátur sem var í eigu útgerðarfyrirtækis Guðmundar Gísla Geirdal, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem dæmdur var til að greiða þrotabúi útgerðarinnar 50 milljónir króna vegna gjafagjörnings, er nú skráður á son hans.

Guðmundur Gísli var í nóvember dæmdur til að greiða þrotabúi Sælindar ehf. 50 milljónir króna vegna þess sem Héraðsdómur Reykjaness leit á sem gjafagjörning. Hafði Guðmundur aflýst veðskuldabréfi sem var með veði í fasteign hans, 13 dögum áður en félagið varð gjaldþrota. Guðmundur hyggst áfrýja dómnum og hefur hann sagt að málið hafi engin áhrif á stöðu hans í bæjarstjórn.

Báturinn skráður á son Guðmundar

Sælind ehf. var útgerðarfélag í eigu Guðmundar og gerði hún út bátinn Gísla KÓ-10. Sá bátur er enn í útgerð og er hann í dag skráður á son Guðmundar samkvæmt Fiskistofu. Samkvæmt heimildum fréttastofu fór báturinn á nauðungarsölu að beiðni tollstjóra og var hann boðinn upp. Tveir mættu á uppboðið, þáverandi bókari Sælindar og svo ótengdur maður. Sá síðarnefndi bauð hærra en svo virðist sem báturinn hafi verið seldur aftur til fjölskyldunnar eftir uppboðið.

Skiptastjóri gerir athugasemdir við bókhald

Í dómnum gerir skiptastjóri verulegar athugasemdir við bókhald fyrirtækisins, til að mynda hafi það aldrei átt að verða gjaldþrota því ársreikningar félagsins hafi sýnt veltufjármuni upp á 136 milljónir í árslok 2016. Eignir hafi því átt að vera talsvert meiri en skuldir. Eigendur hafi hins vegar sagt engar eignir í félaginu. Þá hafi verulegar breytingar verið gerðar í bókhaldi fyrirtækisins eftir að ríkisskattstjóri tók ársreikninga þess til skoðunar.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi