Kertum fleytt fyrir fórnarlömb kjarnorkuárása

09.08.2019 - 06:25
Mynd með færslu
 Mynd: Ævar Örn Jósepsson - RÚV
Friðarsinnar safnast saman í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Patreksfirði í kvöld og fleyta kertum til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárása Bandaríkjamanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí, 6. og 9. ágúst 1945. Í tilkynningu frá Samtökum Hernaðarandstæðinga, sem standa að kertafleytingunni, segir að með athöfninni sé jafnframt minnt á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna, enda séu þau enn í dag einhver mesta ógnin við tilvist mannkyns.

Bent er á að almenningur hafi verið rækilega minntur á hættuna af kjarnorkuvopnum  að undanförnu, þegar fréttir berast af riftun afvopnunarsamnings stórveldanna Rússlands og Bandaríkjanna, hótunum hinna síðarnefndu um að beita slíkum vopnum gegn Íran og vaxandi spennu í samskiptum kjarnorkuveldanna Indlands og Pakistans, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Í Reykjavík verður kertum fleytt á Tjörninni og hefst dagskráin klukkan 22.30. Ísfirðingar fleyta kertum í fjörunni við Neðstakaupstað á sama tíma og á Patreksfirði hefst athöfnin líka klukkan hálfellefu. Akureyringar verða aðeins fyrr á ferðinni og fleyta friðarkertum sínum á Minjasafnstjörninni klukkan 22.00.

Tilkynningu SHA má lesa á heimasíðu samtakanna með því að smella hér.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi