Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kerskáli þrjú endurræstur í byrjun september

09.08.2019 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hafist verður handa við að endurræsa kerskála þrjú í álveri Rio Tinto í Straumsvík í september. Nokkra mánuði getur tekið að koma skálanum að fullu í gagnið. 

Getur tekið nokkra mánuði að endurræsa

Meira en þriðjungur starfsemi álvers Rio Tinto í Straumsvík hefur legið niðri frá 21. júlí. Þar myndaðist svokallaður ljósbogi þegar ker ofhitnaði í einum þriggja kerskála og því var ákveðið að slökkva á öllum kerjunum í skálanum. 160 ker eru í hverjum skála. Nú er áætlað að ræsing skála þrjú hefjist snemma í september, þegar öll framleiðsla hefur legið niðri í sex vikur. Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, segir að ræsingin sé flókin. „Við reiknum með að það ferli geti tekið nokkra mánuði. Það eru ræst nokkur ker á dag og það svona fer bara eftir því hvernig það gengur.“ Ekki sé hægt að áætla hvenær skálinn verður að fullu kominn í gagnið.

Ró komin á kerskála eitt og tvö 

Mikið álag hefur verið á starfsmönnum fyrirtækisins við að koma ró á kerskála eitt og tvö að undanförnu. „Kerin eru ekki stöðug, það er eitthvað sem er kallað ris í þeim og annað því um líkt. Þá gengur reksturinn einfaldlega ekki eins vel og þarf meiri eftirtekt og umhyggju í kringum kerin.“

Bjarni segir að nú sé komið jafnvægi á kerin þótt einhver séu enn úti en jafnvægi sé forsenda þess að hægt sé að ræsa kerskála þrjú að nýju.  „Þetta voru mjög óvenjulegar aðstæður þannig að við gerum ráð fyrir að svona lagað sé ekki að koma upp á ný. Öll öryggismál eru i algjörum forgangi við þessa endurræsingu. “

Gefa ekki upp hvað olli ljósboganum

Að sögn Bjarna vill Rio Tinto ekki upplýsa hvað gerðist nákvæmlega í skála þrjú þegar ljósboginn myndaðist. Þó sé vitað hvað þurfi til að atvikið endurtaki sig ekki.  

Álverið hefur átt í rekstrarerfiðleikum að undanförnu. Tap af rekstri þess var rúmlega fimm milljarðar króna í fyrra. Samkvæmt heimildum fréttastofu hleypur framleiðslutjón vegna lokunar þriðja kerskálans á milljörðum króna. 

„Augljóslega minnkar framleiðslan meðan á þessu stendur og það liggur fyrir auðvitað að það er fjárhagslegt tjón af þessu en það er ekkert hægt að segja til um hvorki framleiðslu, tap eða fjárhagslegt tjón á þessari stundu.“