Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kerfin þurfa að virka því hættan er ekki yfirstaðin

15.01.2020 - 10:39
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Það er mikil mildi að ekki fór verr, en hugur manns er hjá Flateyringum og Vestfirðingum öllum. Vegna þess að þegar svona snjóflóð kemur þá vakna upp allskonar tilfinningar.“ Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, sem var stödd í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í morgun.

Hver eru síðan næstu skref hjá stjórnvöldum?

„Það sem lýtur að mér eru almannavarnarmálin í heild sinni. Það er mikilvægt að kerfið okkar hafi virkað vel í nótt og haldi áfram að virka vel því hættan er ekki yfirstaðin.“

Er eitthvað aukafjármagn til skoðunar?

„Það þarf að skoða það. Það lítur út fyrir að það hafi orðið mikið eignatjón. Það þarf að skoða það í heild sinni. Það þarf fyrst og fremst að tryggja það að það sé í lagi með alla og að búnaður og annað verði sent til Flateyrar. Það er á leiðinni með Þór og það er mjög gott að Þór var kominn á staðinn á Vestfirði til að tryggja að öllum líði eins vel og best verður á kosið.“

Munt þú sjálf fara vestur?

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um það.“

Er tilefni til að kalla saman öryggisráð?

„Við áttum góðan fund með ríkislögreglustjóra og aðilum sem koma að samhæfingarmiðstöð. Þetta er samvinnuverkefni margra aðila. Við fengum góðar upplýsingar og nú þurfa þeir að fá vinnufrið þegar birtir til, til að meta hver hættan er áfram og hvort varnargarðurinn hafi haldið nægjanlega. Þeir þurfa vinnufrið til þess og við munum fylgjast áfram náið með.“