Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kerfið megi ekki vera háð duttlungum stjórnmálamanna

13.11.2019 - 15:32
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar Þór Björnsson - RÚV
„Við þurfum að fara vel yfir allar leikreglur sem snerta stjórnmálaflokkana sem slíka. Það þarf að gera kerfið allt hvar sem borið er niður gegnsærra og ekki háð duttlungum stjórnmálamanna hverju sinni eða hversu vel þeir eru tengdir,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar um Samherjaskjölin.

Samherji hefur undanfarin áratug greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna í þeim tilgangi að komast yfir eftirsóttan kvóta. Þetta kemur fram í gögnum sem lekið var til Wikileaks og Kveikur hefur rannsakað.

„Þetta eru sláandi upplýsingar,“ segir Þorgerður Katrín jafnframt. „Við þurfum að skoða hvað við getum gert, breyta kerfum hér heima. Við skulum hafa það í huga að þetta er óska ríkisstjórn kerfisins,“ bætir hún við.

Héraðsaksóknari er með mál Samherja til skoðunar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra að málið væri mikið áhyggjuefni fyrir íslenskan sjávarútveg og atvinnulíf. Á morgun verður sérstök umræða á Alþingi um spillingu og viðbrögð við henni. Skattrannsóknarstjóri fékk nýlega gögn frá Namibíu en er bundinn trúnaði um hvern eða hvað þau varða.