Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kerfi byggt á sárustu þjáningum kvenna

Mynd: EPA / EPA

Kerfi byggt á sárustu þjáningum kvenna

14.08.2019 - 14:53

Höfundar

Kona í hvarfpunkti eftir Nawal El Saadawi kom út í sumar hjá Angústúru forlagi. Bókin var fyrst gefin út árið 1975 í Líbanon. Saadawi er egypskur rithöfundur, læknir og baráttukona fyrir mannréttindum en verkið var bannað í heimalandi hennar. Sjálf hefur hún setið í fangelsi og verið gerð útlæg úr Egyptalandi fyrir baráttu sína. 

Elísa Björg Þorsteinsdóttir, þýðandi, segir bókina tímalausa, enda er hún enn að koma út í nýjum þýðingum, 44 árum síðar. „Segja má að höfundurinn sé sjálf tímalaus, hún er enn að mótmæla, ekki bara í skrifum heldur er hún aktívisti. Hún veit hvað hún syngur og hún kann alveg að syngja það.“ Eitt af því sem hún hefur barist hvað harðast á móti er umskurður barna, sjálf var hún umskorin sex ára gömul. 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA/Angústúra
Nawal El Saadawi, höfundur Konu í hvarfpunkti.

Kona í hvarfpunkti segir sögu Firdaus, sem hefur verið dæmd til dauða fyrir morð. Firdaus þessi, sem var vændiskona, var til í alvörunni og Saadawi hitti hana í störfum sínum innan heilbrigðisgeirans. Elísa segir þó að stundum sé erfitt að greina á milli hvar sögu Firdaus sleppir og saga höfundar tekur við. Þær fléttist saman. „Í raun og veru skiptir það ekki máli. Það sem hún er að segja á sér rót í hennar lífi með einum hætti eða öðrum. Þetta eru tvær raunverulegar ævisögur sem blandast saman í skáldsöguna.“ 

Linnulaus þjáning og óréttlæti

„Hún er mjög upptekin af því að segja satt,“ segir Elísa, „en hún er líka mjög meðvituð um að það er hættulegt. Einhvers staðar las ég „sannleikurinn er hættulegur í samfélagi sem lýgur“ og það sannast algjörlega, bæði á henni sjálfri sem lendir í fangelsi fyrir að skrifa um sín hugðarefni, og auðvitað á Firdaus í bókinni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýðandi.

Ofbeldi er fyrirferðarmikið í bókinni og það er sett fram í öllum mögulegum myndum. Valdaójafnvægi feðraveldisins er áþreifanlegt á öllum vígstöðvum, allt frá æskuheimilinu og fram eftir götum lífsins, þegar hún hefur gerst vændiskona. „Hún verður fyrir líkamlegu ofbeldi af hendi föðurins strax, maður kannski áttar sig ekki á því, en hún er til dæmis linnulaust svöng, því pabbinn fær alla bitana. Henni er kalt, því pabbinn liggur við ofninn, en ekki börnin. Hún verður fyrir kynferðisofbeldi, frá blautu barnsbeini, ekki bara í gegnum umskurðinn heldur beinu ofbeldi líka. Hún verður fyrir fjárhagslegu ofbeldi, því öllu sem hún vinnur sér inn er stolið af henni. Hún verður einnig fyrir andlegu ofbeldi. Einhvers staðar hlýtur kona, sem er jafnklár í kollinum og þessi Firdaus greinilega er, að átta sig á því að það er sama hvað hún gerir, hún hefur aldrei völd.“

Konan á ekki skilið virðingu

Firdaus horfir á heiminn með gagnrýnum augum, alveg eins og höfundur bókarinnar. Hún setur spurningarmerki við allt sem hún sér, allt frá upphafi, hún hlustar og horfir með athygli.

Á einum stað í bókinni rennur upp fyrir Firdaus að alveg eins og hún hefur engin völd þá mun hún aldrei njóta virðingar. „Virðingin er aðalpersónunni ofarlega í huga,“ segir Elísa, „Það er ekki bara það að sleppa við að vera barin og nauðgað, heldur líka að það sé borin virðing fyrir henni. Niðurstaða hennar er sú að hún mun aldrei njóta virðingar í samfélagi feðraveldisins. Það er mótsögn í sjálfu sér. Sem kona geturðu ekki notið virðingar í samfélagi þar sem karlar einir ráða.“

Ástir kvenna

Sagan er átakanleg, Firdaus er svikin hvað eftir annað, af nær öllum sem hún mætir. Þó eru undantekningar á því og segja má að hún verði ástfangin – eða finni fyrir ást – tvisvar í bókinni. „Það er líka fólk sem reynist henni vel, meðal annars kennslukona í skólanum hennar. Það eru nokkrar lýsingar á samskiptum þeirra, sem vísa mjög sterklega til þess að okkar kona, Firdaus, hafi hreinlega verið ástfangin af þessari kennslukonu sinni. Það er ekkert líkamlegt gefið í skyn, en sú lýsing – ákveðnar senur í því samhengi – minnir á það þegar hún síðar verður ástfangin af karlmanni, sem reyndar fór ekki vel með hana. En bara það, að á þessum tíma í þessu samfélagi – þessu rembulegasta af ýmsum rembulegum samfélögum – skuli vera ýjað að því að kona geti orðið ástfangin af konu, án þess að allt verði gjörsamlega trítilbrjálað, finnst mér stórmerkilegt. Það er eitt af fjölmörgu merkilegu sem þessi höfundur gerir og opnar á, alveg stórkostlega.“ 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókmenntir í ljósi hreyfanleika

Bókmenntir

Eru sannsögur bókmenntir framtíðar?

Bókmenntir

Bókmenntir þeirra sem eiga ekki neitt

Menningarefni

Fagurbókmenntir við kennslu í læknisfræði