Kennsla lá að mestu leyti niðri vegna óveðursins

14.02.2020 - 19:41
Mynd: Reykjavíkurborg / Reykjavíkurborg
Kennsla fór úr skorðum víða um land í dag vegna veðursins og lá hún að mestu leyti niðri í skólum á höfuðborgarsvæðinu. Reglulegt skólahald var fellt niður en leikskólar og grunnskólar voru opnir með lágmarksmönnun fyrir fólk sem sinnir neyðarþjónustu og löggæslu, slökkviliðsmenn og björgunarsveitarfólk og aðra sem þurfa nauðsynlega vistun fyrir börn sín. Skólastjórar segja að svo víðtækar lokanir hafi ekki orðið í langan tíma.

Kennsla var einnig felld niður í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Nokkur fjöldi nemenda í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ mætti þó til skóla í dag þar sem þar standa yfir lokapróf miðannar.