Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kennir náttúruverndarsinnum um Amazon-eldana

22.08.2019 - 08:52
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, segir hugsanlegt að félagar í frjálsum félagasamtökum, þar á meðal umhverfisverndarsamtökum, hafi kveikt suma þá elda sem geisað hafa á Amazon svæðinu að undanförnu. 

Geimvísindastofnun Brasilíu segir gervihnattamyndir sýna að fleiri eldar hafi kviknað í Amazon-regnskóginum á þessu ári en nokkrum sinnum áður.

Umhverfisverndarsamtök hafa kennt Bolsonaro um þessa þróun, en skógeyðing hafi aukist hratt síðan hann tók við embætti forseta í janúar og hann hafi hvatt bændur og fyrirtæki í skógarhöggi að ryðja land til ræktunar.

Fjöldi ríkja hefur gagnrýnt stefnu forsetans og hafa nokkur hætt framlögum í Amazon-sjóðinn svokallaða sem styrkt hefur verkefni umhverfisverndarsamtaka og opinberra stofnana til verndar regnskógunum. 

Bolsonaro sagði í gær að samtök þessi kynnu að hafa kveikt eldana til að koma höggi á stjórn sína og skapa vandræði. Aðspurður kvaðst hann þó engar sannanir hafa.

Fulltrúar umhverfisverndarsamtaka í Brasilíu segja þessar yfirlýsingar forsetans fráleitar og bera vott um takmarkaða yfirsýn um stöðu mála. Hann sé að reyna beina umræðunni annað en að ólöglegri starfsemi á Amazon-svæðinu.