Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kennir formanni Blaðamannafélagsins um uppsagnir

28.11.2019 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri viðskiptablaðs Morgunblaðsins, segir að uppsagnir 15 starfsmanna á Árvakri megi rekja til óraunhæfra krafna og verkfallsaðgerða Blaðamannafélagsins og Hjálmars Jónssonar formanns þess. Hann fer ófögrum orðum um Hjálmar og samninganefnd félagsins á Facebook.

Fimmtán manns á ýmsum deildum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, var í dag sagt upp störfum.

Stefán segist hafa spurt Hjálmar út í yfirstandandi verkfallsaðgerðir á fundi Blaðamannafélagsins á mánudaginn og hvort lagt hafi verið mat á það hve mörg störf gætu tapast vegna þeirra. Hjálmar hafi þá sagt að hann gæti ekki haft áhyggjur af því hversu mörg störf myndu tapast. Þá hafi hann einnig spurt hann hvort framkvæmt hefði verið kostnaðarmat á þeim kröfum sem félagið haldi fram gagnvart SA, sem Hjálmar vilji ekki upplýsa blaðamenn um hverjar séu. 

Samninganefnd og Hjálmar ekki í tengslum við raunveruleikann

„Í dag horfum við starfsfólk Árvakurs á eftir 15 öflugum og góðum samstarfsmönnum sem sagt er upp vegna rekstrarerfiðleika fyrirtækisins. Á morgun ætlar Hjálmar Jónsson að lama þetta sama fyrirtæki með 12 tíma löngu verkfalli,“ segir Stefán Einar. 

Annað svipað eigi að fylgja í næstu viku og enn harðari aðgerðum hafi verið hótað í kjölfarið. Stefán Einar segir Hjálmar og samninganefnd félagsins ekki í neinum tengsum við raunveruleikann. 

„Það er erfitt að bjarga mönnum frá sjálfum sér. Það er hins vegar verra þegar ekki er hægt að bjarga saklausu fólki frá heimsku þeirra.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Blaðamenn og fréttastjórar á mbl.is sendu tvívegis frá sér yfirlýsingu í miðjum verkfallsaðgerðum Blaðamannafélagsins þar sem þau lýstu yfir vonbrigðum með vinnubrögð Morgunblaðsins á meðan á vinnustöðvun félagsmanna stóð. Þær fréttir sem hafi verið birtar á mbl.is á meðan á löglega boðaðri vinnustöðvun þeirra stóð hafi ekki verið á þeirra ábyrgð. Blaðamenn sem að öllu jöfnu skrifi ekki fréttir á mbl.is hafi tekið til við að skrifa á miðilinn með vitund og vilja ritstjóra og framkvæmdastjóra Morgunblaðsins. 

Blaðamenn kolfelldu kjarasamninga

Samninganefnd Blaðamannafélagsins og Samtök atvinnulífsins hittust á fundi hjá Ríkissáttasemjara klukkan ellefu en fundinum lauk fyrir um hálftíma. Hjálmar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að verið væri að ræða hlutina og reyna að vinna úr þeirri stöðu sem uppi er. 

Ekkert varð af verkfalli blaðamanna sem boðað hafði verið til síðasta föstudag. Samninganefnd félagsins ákvað að aflýsa verkfallinu og gera félagsmönnum kleift að kjósa um nýja kjarasamninga. 

Félagar í Blaðamannafélagi Íslands kolfelldu kjarasamning félagsins við Samtök atvinnulífsins í atkvæðagreiðslu á þriðjudaginn. Rúmlega sjötíu prósent greiddu atkvæði gegn samningnum eða 105 af þeim 147 sem kusu. Hjálmar sagði í kjölfar úrslitanna að niðurstaðan kæmi honum ekki á óvart. Blaðamenn væru með þessu að senda skýr skilaboð um að þeir vildu gera hóflegan kjarasamning. Niðurstaðan myndi vonandi kalla á alvöru viðræður.

Að óbreyttu fara blaðamenn í verkfallsaðgerðir á morgun og svo aftur á fimmtudaginn í næstu viku. Vinnustöðvun morgundagsins nær til blaðamanna á netmiðlum  ljósmyndara og tökumanna fyrirtækja sem SA semur fyrir.