Kennarastéttin misst bæði stöðu og virðingu

Mynd:  / 

Kennarastéttin misst bæði stöðu og virðingu

24.05.2019 - 10:58
Skólakerfið er risastórt, það teygist frá leikskóla og þar til við hættum í Háskóla. Við lærum sem börn hvernig við eigum að haga okkur og við höfum fyrirmyndir í kennurum og leiðbeinendum. Raunin er enn sú í dag að kerfið er allt töluvert kynjað.

Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir fjölluðu um kynjaskiptingar í skólakerfinu í hlaðvarpsþættinum Allskyns. Þau veltu því meðal annars fyrir sér hvað sé sem veldur þessu, hvers vegna kennarastéttin hefur misst stöðu og virðingu með tímanum og hvers vegna karlkynskennarar eiga auðveldara með að þykja „kúl“.

Þórður Kristinsson, kynjafræðikennari við Kvennaskólann í Reykjavík, segir að á fyrstu skólastigunum sé að finna svakalegan kynjahalla í aðra áttina. Konur eru í margfalt meiri hluta starfsmanna í leikskóla, í grunnskólum eru sömuleiðis fáir karlar sem starfa sem kennarar og í menntaskólum er hlutfallið líka skekkt. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fyrir árið 2017 erum 94% leikskólakennara konur og 82% grunnskólakennara.

Það þarf hins vegar ekki að fara langt til þess að sjá kynjahlutföllin akkúrat öfugt. Þegar skólakerfið var að komast á fót voru nefnilega nærri allir kennarar karlar og staðan vað mun meiri virðingarstaða en hún er í dag og launin í samræmi við það. „Þetta er dæmi um stétt sem hefur misst stöðu og virðingu með auknu hlutfalli kvenna,“ segir Þórður.

Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, segir kennslustarfið hafa tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Nú felst í því miklu meiri umhyggja og uppeldi og er því stimplað sem „kvennastarf.“ Um leið lækkuðu launin og virðingin minnkaði af því við getum ekki borið virðingu fyrir þekkingu sem er sköpuð í tengslum við tilfinninga og uppeldisvinnu, segir Berglind.

„Það er ekki talið raunveruleg þekking að hjúkra eða kenna og konur hafa í meira mæli sinnt þessum þáttum. Það sem við skilgreinum sem kvenlegt er þannig byggt á sögulegum grunni.“

Mynd með færslu
Háskólatorg HÍ Mynd: RÚV

En hvað með nemendur innan skólakerfisins? Tölur sýna að það er töluvert algengara að stelpur fari í framhaldsskóla og konur sem útskrifast úr háskóla eru miklu fleiri en karlar. Þórður segir að þegar skoðað er hvernig strákar og stelpur nálgist nám þá sé, án þess að alhæfa, tilhneigingin sú hjá strákum að þeir þurfi að láta líta út fyrir að þeir þurfi ekki að leggja neitt á sig. „Stelpur eru aftur á móti aldar upp í því að vera samviskusamar og leggja mikið á sig.“

Samt eyða kennarar meiri tíma í að hjálpa strákum. Rannsóknir sýna nefnilega að meirihluti tíma kennara fer í það að sinna strákum, hvort sem það felst í því að kenna þeim eða aga þá. Þannig tapa stelpur tíma frá kennara af því tímanum er eytt í að siða þá til. Sömuleiðis hafa rannsóknir sýnt að þegar kennarar hafa prófað að skipta tíma sínum nákvæmlega jafnt milli kynjanna í kennslustundum þá upplifa bæði strákar og stelpur það sem misrétti, að það sé verið að hygla stelpunum.

„Við erum svo óvön því að sjá jafnrétti að það virkar eins og ójafnrétti.“

Í hlaðvarpinu Allskyns skoða Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir allskyns störf, skoða hvers kyns þau eru og hvort kyn skipti þar einhverju máli. Hlustaðu á þátt vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan. Hann er einnig aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum, í spilar RÚV og RÚV appinu. 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Förum ekki að stera upp alla kveníþróttamenn