Kennarar telja bæjarfulltrúa hafa vegið að sér

02.12.2019 - 10:31
Seltjarnarnes, Seltjarnarnesbær
 Mynd: Fréttir
Kennarar í Valhúsaskóla felldu niður kennslu í sjöunda til tíunda bekk í dag vegna óánægju með framgöngu kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn. Meirihlutinn í bæjarstjórn bað nemendur í tíunda bekk sem útskrifuðu síðasta vor, og foreldra þeirra, afsökunar á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Þetta voru viðbrögð bæjarins vegna óánægju foreldra með hvernig staðið var að námsmati í skólanum í vor.

Foreldrar og stjórnendur í Grunnskóla Seltjarnarness sendu í morgun póst á foreldra barna í Valhúsaskóla, þar sem sjöundi til tíundi bekkur eru kenndir. Þeir segjast harma þann dóm sem pólitískir fulltrúar hafi fellt yfir skólanum. „Þessi umfjöllun hefur haft þau áhrif inn í skólann að kennurum og stjórnendum finnst freklega að sér vegið og kennarar treysta sér ekki til að taka á móti nemendum í dag.“ segir í bréfi til foreldra. Upphaflega var kennsla felld niður milli átta og tíu. Síðan var kennsla felld niður í allan dag. „Skólastarf mun því falla niður í dag og upplýst verður um framhaldið þegar það liggur fyrir.“

Foreldrar kvörtuðu undan námsmati í vor og voru ósáttir við viðbrögð skólans. Úr varð að utanaðkomandi skólakennari var fenginn til að taka saman greinargerð um námsmat í skólanum og gagnrýni á það. Niðurstaðan var sú að ýmislegt þyrfti að bæta, bæði í námsmati og upplýsingagjöf. 

Foreldrafélagið bókaði á fundi í skólanefnd að börn á Seltjarnarnesi hefðu ekki setið við sama borð og aðrir tíundu bekkingar landsins í vor þegar kom að innritun í framhaldsskóla. Bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista bókaði í bæjarstjórn að skólinn hefði í raun fengið falleinkunn.

Bæjarstjórnarmeirihlutinn á Seltjarnarnesi bað tíundu bekkinga og foreldra þeirra afsökunar á síðasta bæjarstjórnarfundi og harmaði deilur um námsmat. Meirihlutinn sagði að unnið væri með breytt verklag við námsmat í vetur, að unnið sé að gerð námsmatsstefnu fyrir skólans og að fræðslustjóri fylgist með framvindu vinnu við námsmat.

Þessi viðbrögð bæjarfulltrúa hafa hleypt illu blóði í kennara.

Skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness hefur verið á fundum með kennurum í morgun.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi sendu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem þeir lýsa fullum stuðningi við Grunnskóla Seltjarnarness og stjórnendur hans. Í yfirlýsingu segja þeir að þau orð sem fallið hafi um að skólinn fái falleikunn og að kennarar þar hvetji hvorki né styðji við nám barna á Seltjarnarnesi eigi ekki við rök að styðjast.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi