Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kennarar lýsa yfir vantrausti á skólameistara

05.10.2019 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Stærstur hluti kennara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi skilaði í gær inn sameiginlegri vantraustsyfirlýsingu á Ágústu Elínu Ingþórsdóttur skólameistara.  

Garðar G. Norðdahl, formaður kennarafélags skólans, staðfestir það við fréttastofu en DV greindi fyrst frá málinu. Garðar segir að ástæða vantraustsins sé óánægja með stjórnarhætti skólameistarans, sem fellst meðal annars í því að laun hafa verið skorin mikið niður. 

Ágústa Elín var skipuð skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands frá 1. janúar 2015 til 31. desember á þessu ári. Í sumar ákvað Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra að auglýsa stöðu skólameistara frá og með áramótum lausa til umsóknar. Ágústa telur ranglega hafa verið staðið að auglýsingunni og hefur stefnt ríkinu. 

Lilja víkur sæti við skipun skólameistara. Kennarar afhentu því Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vantraustsyfirlýsingu sína í gær.