„Kemur fram einu sinni á hverri mannsævi“

Mynd: EPA-EFE / EPA

„Kemur fram einu sinni á hverri mannsævi“

14.10.2019 - 14:24
Guðmundur Þór Brynjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í áhaldafimleikum, var gestur í íþróttafréttum á RÚV í gærkvöld. Hann segir að hin bandaríska Simone Biles sé löngu komin á stall með þeim allra bestu í íþróttasögunni.

„Hún er ótrúleg íþróttakona og við setjum hana bara á stall með öllu besta íþróttafólki heims. Hún er bara okkar Usain Bolt eða Muhammed Ali. Svona íþróttakona kemur bara fram einu sinni á hverri mannsævi, þetta er ótrúlegur árangur hjá henni,“ segir Guðmundur Þór. 

Biles varð um helgina sigursælasti fimleikmaður sögunnar á heimsmeistaramóti en hún vann fimm gullverðlaun á HM og er nú búin að vinna 25 verðlaun á heimsmeistaramótum, þar af 19 gull. Biles, sem vann fern gull­verðlaun og ein bronsverðlaun á Ólymp­íu­leik­un­um í Ríó de Janeiro fyr­ir þrem­ur árum, er því sam­tals með 29 verðlaun á HM og ÓL. Hana vant­ar fjögur verðlaun í viðbót til að ná Vitali Scher­bo í sam­an­lögðu á þess­um tveim­ur mót­um.