Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kaupendur krefjast lykla fyrir dómstólum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kaupendur tveggja íbúða í nýjum fjölbýlishúsum Félags eldri borgara við Árskóga sendu í dag aðfararbeiðni til dómara. Þess er krafist að þau fái íbúðirnar afhentar. Lögmenn þeirra staðfesta þetta. Kaupsamningur sé skýr og félaginu beri skylda til þess að afhenda íbúðirnar.

Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður kaupanda annarrar íbúðarinnar, segir að þess sé krafist að hún fái umráð yfir íbúðinni. Hún eigi rétt á að flytja inn.

Félaginu beri samkvæmt lögum og reglum að afhenda henni íbúðina. Hún hafi staðið við allar skuldbindingar í kaupsamningnum og hann standi. Félagið brjóti hins vegar gegn honum. Aðgerðir félagsins séu með öllu ólögmætar.

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður kaupenda hinnar íbúðarinnar, segir að í aðfararbeiðni umbjóðenda hennar sé þess einnig krafist að fá íbúðina afhenta. Lögin um þetta séu nokkuð skýr og kaupsamningur bindandi. Báðir aðilar verði að standa við umsamin atriði og afhendingarskylda seljanda sé skýr.

Hún segir að málið skýrist í næstu viku. Það líti ágætlega út á þessu stigi og þau séu vongóð.