Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kaupaukar samþykktir á fundi í kvöld

30.08.2016 - 19:51
Mynd:  / 
Aðalfundur eignarhaldsfélags Kaupþings samþykkti í kvöld tillögu um að lykilstarfsmenn fengju kaupauka sem getur numið allt að einum og hálfum milljarði króna samanlagt. Í sumum tilfellum geta starfsmenn fengið bónusa sem nema um og yfir 100 milljónum króna. Fulltrúi stjórnar eignasafns Seðlabanka Íslands greiddi atkvæði gegn tillögunni, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum, sem á rúmlega sex prósenta hlut í Kaupþingi og LBI, sem heldur utan um eignir gamla Landsbanka Íslands.

Fulltrúar erlendra kröfuhafa sátu fundinn í kvöld en hann var lokaður og þurftu fundarmenn að framvísa skilríkjum til að komast inn á hann. 

Fulltrúi eignasafns Seðlabankans greiddi einnig atkvæði gegn bónuskerfinu þegar það var borið undir atkvæði og samþykkt á fundi LBI í apríl. 

Bónusakerfi Kaupþings og LBI ehf. gætu skilað ákveðnum starfsmönnum þeirra tugum milljóna króna.  

Þingmenn voru margir ómyrkir í máli á Alþingi í dag og gagnrýndu harðlega fyrirhugaðar bónusgreiðslur til örfárra lykilstarfsmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækja og vilja senda skýr skilaboð. Þorsteinn Sæmundssson, þingmaður Framsóknarflokksins, leggur til 90 til 98 prósenta skatt á greiðslurnar.
 
Horfa má á ítarlega frétt um málið úr fréttatíma sjónvarps hér að ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV