Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kaupa fiskvinnslu, bát og kvóta á Bakkafirði

06.12.2019 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Náðst hafa samningar um kaup sjávarútvegsfyrirtækisins GPG á Húsavík á stærsta fyrirtækinu á Bakkafirði. Innifalið í kaupunum er fiskverkun á Bakkafirði, bátur og veiðiheimildir.

Fyrirtækið, Halldór fiskvinnsla ehf., í eigu Áka Guðmundssonar og fjölskyldu, hefur stundað útgerð á Bakkafirði í áratugi og er þar stærsti vinnuveitandinn. Með í kaupunum fylgir fiskverkun á Bakkafirði og línu- og netabáturinn Halldór NS 302, ásamt veiðiheimildum.

Halldór fiskvinnsla í samstarfi við Byggðastofnun 

Bakkafjörður er í verkefninu Brothættum byggðum og Byggðastofnun úthlutaði því sértækum fiskveiðikvóta og gerði samstarfssamning við Halldór fiskvinnslu til sex ára. Kvótinn nemur 250 þorskígildistonnum. Þær veiðiheimildir eru bundnar við Bakkafjörð, sem þýðir að GPG er skuldbundið til að landa þeim fiski og vinna á Bakkafirði þau tæp fimm ár sem eftir eru af samningnum.

Starfsfólkinu tilkynnt um kaupin

Áki Guðmundsson vildi ekki tjá sig um kaupin þegar leitað var eftir því, en staðfesti þó að hann væri að selja fyrirtækið. Þá hefur starfsfólki verið tilkynnt um kaupin.

Mikilvægt að þetta trufli ekki byggðaverkefnið

Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir að sveitarfélagið hafi ekki fengið neinar upplýsingar um þessi viðskipti fyrir fram. Þessu fylgi talsverð óvissa, ástandið á Bakkafirði sé afar viðkvæmt og mikilvægt sé að salan á Halldóri fiskvinnslu trufli ekki þá vinnu sem staðið hafi undanfarna mánuði við að styrkja byggðina á Bakkafirði.