Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kaup Tyrkja á rússnesku loftvarnakerfi standa

13.06.2019 - 04:33
Mynd með færslu
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Mynd:
Kaup Tyrkja á rússneska S-400 loftvarnakerfinu eru frágengin og verður ekki haggað, sagði Recep Tayip Erdogan Tyrklandsforseti í gær. Hann á von á að kerfið verið afhent í næsta mánuði. Þessi tilkynning Erdogans mun að líkindum falla í grýttan jarðveg hjá Bandaríkjastjórn og vekja takmarkaða kátínu hjá stjórnvöldum annarra bandalagsríkja Tyrkja í Nató.

Tyrkir og Bandaríkjamenn hafa mánuðum saman tekist á um kaup hinna fyrrnefndu á rússneska loftvarnakerfinu, sem ekki er samþýðanlegt öðrum varnar- og vopnakerfum sem tíðkast meðal herja Natóþjóða. Bandaríkjastjórn lagði hart að Tyrkjum að fjárfesta frekar í bandaríska Patriot-loftvarnakerfinu, en allt kom fyrir ekki.

Á föstudag lýsti bandaríska varnarmálaráðuneytið því yfir að ef Tyrkir hættu ekki við kaupin á rússneska kerfinu í síðasta lagi 3. júlí myndu þeir ekki fá afhentar 100 bandarískar F-35 orrustuþotur sem þeir hafa pantað og að miklu leyti borgað, auk þess sem tyrkneskir orrustuflugmenn, sem eru í þjálfun í Bandaríkjunum, verði reknir úr landi. Á mánudag barst svo tilkynning um að þjálfun tyrknesku flugmannanna, sem hafa verið við æfingar á F-35 þotum í Arizona síðustu vikur, hafi verið hætt.

Þessar aðgerðir Bandaríkjamanna fóru illa í Tyrki og sagði Hulusi Akar, varnarmálaráðherra, að yfirlýsing Patricks Shanahans, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, bæri ekki vott um að ríkin tvö væru í bandalagi. Yfirlýsing Erdogans í gær undirstrikar svo enn frekar, að Tyrkir hyggjast ekkert gefa eftir í þeirri ætlan sinni að kaupa rússneskar S-400 eldflaugar fremur en bandarískar Patriot-flaugar til að verja lofthelgi sína, hvað sem öllum þotukaupa- og þjálfunarsamningum líður.