Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Katrín um sigur Trump: „Ég er mjög döpur“

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist ekki hafa átt von á því að Donald Trump yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna í nótt. Hún segir að óánægju almennings með kerfið hafa skilað sér í því að kjósa meira til hægri.

Sigur Trumps virðist hafa komið heimsbyggðinni í opna skjöldu. Úrslitin voru ekki ljós fyrr en um átta leytið í morgun þegar Trump hafði sigur í óvissuríkjunum Wisconsin og Pensylvaniu og tryggði sér þannig þá 270 kjörmenn sem þarf til að vinna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, tjáir sig um úrslitin á Facebook-síðu sinni og viðurkennir þar að hún sé mjög döpur yfir niðurstöðunni. „Málflutningur þröngsýni og haturs virðist hafa haft sigur í nótt,“ skrifar Katrín.

Hún telur að óánægja almennings með kerfið hafa skilað sér í því að kjósa enn meira til hægri. „ Ófyrirsegjanlegar afleiðingar fyrir stóru verkefnin eins og loftslagsbreytingar og ójöfnuð.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV