Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Katrín: Kosningar augljósi kosturinn

15.09.2017 - 08:10
Mynd: RÚV / RÚV
Kosningar eru augljósasti kosturinn í stöðunni í kjölfar stjórnarslita, að mati Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vintrihreyfingarinnar græns framboðs. „Það sem ég held að sé mikilvægast að gerist núna er að fólk andi í kviðinn yfir stöðunni. Augljósi kosturinn er að það verði boðað til kosninga því að það er engin augljós ríkisstjórn í kortunum,“ sagði Katrín í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Katrín sagði að tíðindi næturinnar hefðu ekki endilega komið mjög á óvart, enda hefði ríkisstjórnin verið mjög ósamstæð frá upphafi. Hún sagði að auðvitað myndu flokkarnir á þingi nú tala saman en hins vegar sæi hún enga augljósa kosti í stöðunni.

Katrín sagði að nú þyrfti að fara yfir hvernig þingið ætlaði að leysa sín verkefni, ef staðan væri sú að boða þyrfti til kosninga. Um atburðarásina sem leiddi til stjórnarslitanna segir Katrín að fara þurfi gaumgæfilega yfir málið á vettvangi þingsins.

„Ég tel að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd – sem þarf auðvitað að fá, að mínu viti, nýja forystu – þarf að fara yfir þessa atburðarás alla og gera það með vönduðum hætti. Það þjónar litlum tilgangi að allir séu að leggja mat á eitthvað þar sem öll sjónarmið eru ekki enn komin fram.“

Þingflokkur Vinstri grænna hittist á fundi núna á eftir til að ræða stöðuna sem upp er komin.