Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Katrín fundaði með leiðtogum EFTA um Brexit

03.02.2020 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið - Mynd:
Leiðtogafundur EFTA-ríkjanna var haldinn í Osló í morgun. Þar fundaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Adrian Hasler, forsætisráherra Liechtenstein.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að fundinum hafi samstarf EFTA-ríkjanna við Bretland verið sérstaklega til umræðu, þar sem ríkin eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta.

„Það er mikilvægt að treysta stoðir EFTA-samstarfsins innan EES, ekki síst þegar við blasa krefjandi verkefni eins og samningsgerð við Bretland í kjölfar Brexit. Þar eiga EFTA-ríkin ýmsa sameiginlega hagsmuni og við munum hafa náið samstarf í tengslum við þessa samningagerð,“ er haft eftir Katrínu á vef Stjórnarráðsins.

Þá var rætt um aukið samstaf á sviði vinnumarkaðsmála og nauðsyn þess að taka hart á brotastarfsemi á vinnumarkaði og félagslegum undirboðum. Þá voru ræddar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og sameiginleg markmið um losun gróðurhúsalofttegunda. 

Fyrir leiðtogafundinn áttu Katrín og Erna Solberg sérstakan fund þar sem rætt var um loftslagsmál, auk stöðunnar í samningum um fiskveiðar í deilistofni Íslands og Noregs. Þá fór Katrín yfir aðgerðir Íslands til að tryggja varnir gegn peningaþvætti. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV