Katrín, Bjarni og Sigurður fara vestur með þyrlunni

16.01.2020 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Formenn stjórnarflokkanna, þau Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Flateyrar eftir hádegið í dag og kynna sér aðstæður.

Þau verja deginum fyrir vestan og koma aftur til baka með kvöldinu. Með í för eru starfsmenn Rauða krossins og almannavarna, þar á meðal Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, og Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur haft í nógu að snúast síðasta sólarhringinn eða svo. Þyrlan hefur verið nýtt í fólks- og birgðaflutninga á Vestfjörðum og hún hefur einnig selflutt fólk og búnað vestur frá Reykjavík. Gert er ráð fyrir að þyrlan komi til Reykjavíkur núna í hádeginu og fari aftur um klukkan hálf tvö. Það tekur svo rúmlega klukkustund að fljúga á Flateyri.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi